
Íris Erlingsdóttir, fjölmiðlafræðingur skrifar um dóm Héraðsdóms í máli Samtakanna 78 gegn Páli Vilhjálmssyni, blaðamanni, bloggara og fv. kennara. Samtökin kærðu Pál Vilhjálmsson fyrir hatursorðræðu en Héraðsdómur sýknaði Pál af ákærunni.
Dómsniðurstöður voru ekki birtar þegar greinin var skrifuð en ljóst er að Héraðsdómur hefur ekki tekið mark á yfirlýsingu Silju Rán Arnarsdóttur, saksóknara, um „miðaldra karla sem brjálast við lyklaborðið.“
Íris Erlingsdóttir skrifar:
Ef til vill er von fyrir Ísland.
Páll Vilhjálmsson hefur verið sýknaður af kæru lögreglustjóra Reykjavíkur fyrir
„hatursorðræðu“ gegn Samtökunum 78 (S78).
Dómurinn hefur ekki enn verið birtur á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur, svo við vitum ekki á hvaða forsendum dómarinn sýknaði Pál, en að þessi kæra skyldi hafa fundið sér farveg til Héraðsdóms ætti að vera ógnvekjandi áminning til Íslendinga um hvernig komið er fyrir rétti þeirra til málfrelsis.
Páll var kærður fyrir þessi ummæli:
- „Samtökin 78 eru regnhlífarsamtök og lífsskoðunarfélag fullorðinna sem áhugasamir eru um klám, kynlíf, kynjaveröld og tælingu barna.“
- „Kennsluefnið er tæling dulbúin sem upplýsingar. Meðfædd blygðunarsemi barna er skipulega brotin niður. Börn eru gerð móttækileg fyrir þátttöku í kynlífi og það jafnvel ofbeldiskynlífi – BDSM. Ringluð börn og óörugg eru síður í stakk búin að veita viðnám fullorðnum með eitthvað misjafnt í huga. Út á það gengur tælingin.“
Með dyggum stuðningi nær allra íslenskra stjórnmálaflokka, hefur íslenska ríkið veitt pólitískum sérhagsmunasamtökum, Samtökunum 78, margföld leyfi til að troða á málfrelsisréttindum borgaranna: fyrst og fremst í formi hegningalagaákvæðis sem gerir Lúxusríkisborgurum þessara samtaka kleift ofsækja fólk fyrir óskilgreinda og óskilgreinanlega háttsemi – „hatursorðræðu“ – og láta dæma það í fjársektir og allt að tveggja ára fangelsi og svo mikil er ást íslenskra stjórnmálaflokka á þessum samtökum, að til að tryggja að meðlimir þeirra geti setið í ró og næði og njósnað um orðræðu þína, gaf íslenska ríkið þeim í fyrra 97 milljónir krónur af peningunum þínum.

S78 segjast vera „hagsmunafélag hinsegin fólks á Íslandi,“ en þau eru fyrst og fremst pólitísk sérhagsmuna- og sértrúarsamtök gegn málfrelsi og íslenska ríkið, sem gerði þjóðkirkjuna brottræka úr skólum landsins, ætti að sjá að þess að hið sama gildi um S78 og öll önnur sértrúarsamtök. Foréttinda- og sérréttindapólitík ríkisins fyrir hönd Lúxusríkisborgara S78 í formi refsilaga, skattfjár og lögregluvalds er óþolandi mannréttindabrot gagnvart öðrum þegnum.
Ekki eitt einasta letihaugadýr frá íslenskum fjölmiðlum hafði fyrir því að mæta við dómsuppkvaðninguna, en við vitum hve annt þeim er um málfrelsið; fjölmiðlar í landinu, sem stöðugt troða áróðri aðgerðasinna ofan í almenning, eru ófærir um að framkvæma grundvallarskyldur starfa sinna.
Saksóknarinn í málinu, Silja Rán Arnarsdóttir, staðhæfði að Páll hefði hæðst að, rógborið og smánað viðkvæman minnihlutahóp og ætti að sæta refsingu fyrir, sekt eða fangelsisvist, að „‘miðaldra karlar sem brjálast við lyklaborðið’ verði að hljóta makleg málagjöld, fjárútgjöld og fangelsisvist.“
Í niðurlagi kæru S78 gegn Páli bendir lögmaður S78, Kristrún Elsa Harðardóttir, á að „brot gegn 233. gr. a. hgl. sæti ákæru án kröfu þess sem misgert er við…“
Ég verð að segja að ég er, fyrir hönd Páls og „miðaldra karla,“ „móðguð, smánuð og
rógborin…“ vegna þessa orðfæris saksóknarans og er að spá í að kæra hana fyrir
„hatursorðræðu“…
Íris Erlingsdóttir er fjölmiðlafræðingur
