Þýska leyniþjónustan: Best að Úkraínustríðið haldi áfram fimm ár í viðbót

Bruno Kahl, yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar, Bundesnachrichtendienst (Mynd:Remix).

ESB-ríkin þurfa að hafa Úkraínustríðið fimm ár til viðbótar til að ná því markmiði að þreyta rússneska herinn. Þetta segir yfirmaður leyniþjónustunnar í Þýskalandi í yfirlýsingu sem vekur reiði og óánægju bæði í Úkraínu og heima fyrir, segir í frétt Remix News. Bera má ummæli hans saman við ummæli Ursulu von der Leyen sem gefur ESB sama tíma til að hervæðast fyrir allsherjarstríð við Rússland.

Æðsti yfirmaður leyniþjónustu Þýskalands, Bruno Kahl, hefur vakið hörð viðbrögð með ummælum sínum í viðtali við Berliner Zeitung, að það besta fyrir ríki Evrópu sé að Úkraínustríðið haldi áfram að minnsta kosti fram til ársins 2030.

Að samþykkja vopnahlé fyrir þann tíma myndi aðeins gera Rússlandi kleift að jafna sig hraðar og og verða að ógn fyrir alla Evrópu. Kahl segir:

„Ef Úkraínustríðið verður stöðvað fyrir ár 2029 eða 2030, þá mun geta Rússa – bæði tæknileg og efnisleg – verða tilbúin mun fyrr sem ógn við alla Evrópu.

Yfirlýsingin hefur vakið mikla reiði í Úkraínu og núna ásaka margir stjórnmálamenn stjórnarandstöðunnar Vesturlönd opinskátt um að nota Úkraínu og íbúa hennar sem fallbyssufóður í eigin hagsmunaskyni.

Tímósjenkó: Úkraínumönnum hefur verið fórnað

Fyrrum forsætisráðherra, Júlía Tímósjenkó, sem fer fyrir stjórnarandstöðuflokknum Föðurlandinu, skrifar á Facebook að Kahl hafi ratað á sannleikskorn sem Úkraínumenn hafa hingað til ekki viljað viðurkenna fyrir sjálfum sér. Hún spyr:

„Hefur einhver ákveðið að borga fyrir að þreyta Rússa með tilveru Úkraínu og lífum hundruð þúsunda Úkraínumanna í nafni Evrópu? Ég hélt aldrei að það yrði rætt svona opinskátt.“

Júlía Tímósjenkó hvetur einnig Volodymyr Zelensky forseta til að binda enda á stríðið þegar í stað og skrifa undir friðarsamkomulag.

Þýskir fjölmiðlar greina frá því að túlkunin í Kænugarði sé sú að yfirmaður leyniþjónustu Þýskalands viðurkenni opinberlega að stríðslok séu ekki æskileg fyrir Evrópu. Dagblaðið Berliner Zeitung spyr: „Á að berjast á öxlum Úkraínu?“

Verðum að bjarga okkur sjálfum

Svipuð gagnrýni kemur frá Úkraínumanninum Oleksiy Honcharenko frá Samstöðuflokki Evrópu. Hann skrifar á Telegram að Úkraínumenn verði að „bjarga sjálfum sér“ í stað þess að fórna sér til að „bjarga“ Evrópu. Hann skrifar:

„Ekki eftir fimm eða tíu ár. Ljúkum stríðinu núna.“

Úkraínski stjórnmálafræðingurinn Anatolij Oktyshuk segir að yfirlýsingar Kahls staðfesti þann grun að friður sé ekki hagur Evrópu. Hann skrifar á samfélagsmiðla:

„Auðvitað eru friðarviðræður og endalok stríðsins óhagstæð fyrir Evrópu. Eiga Úkraínumenn að berjast eins lengi og mögulegt er til að friður verði í Evrópu?“

Á sama tíma aukast áhyggjur í Úkraínu vegna skelfilegra lýðfræðilegra afleiðinga stríðsins: Lág fæðingartíðni, fjöldaflótti og mjög mikil dráp ungra karlmanna. Núna fæða tíu úkraínskar konur að meðaltali aðeins sjö börn. Til að halda íbúafjölda á núverandi stigi þyrfti talan að vera að minnsta kosti 22. Verið er að ræða um þann möguleika að hefja fjöldainnflutning innflytjenda frá þriðja heiminum til að fylla í eyðurnar.

Zelensky forseti hefur ekki enn sem komið er svarað gagnrýninni – en þar sem almennar kosningar eru ekki á dagskrá í óákveðinn tíma, þá þarf hann engar áhyggjur að hafa af Júlíu Tímósjenkó eða þeirri hverfandi stjórnarandstöðu sem enn leyfist að vera með í landinu.

Fara efst á síðu