Samkvæmt rannsóknarskýrslu þýska Viðskiptablaðsins „Handelsblatt Research Institute, HRI“ sem Mandiner fréttagáttin greinir frá, þá er Þýskaland að fara inn í þriðja ár efnahagssamdráttar árið 2025. Þýskaland stendur frammi fyrir lengstu efnahagskreppu sögunnar eftir seinni heimsstyrjöldina.
Þýskaland sem er stærsta hagkerfi Evrópusambandsins gæti dregist saman um 0,1% á þessu ári eftir 0,3% samdrátt á árunum 2024 og 2023. Bert Rürup, aðalhagfræðingur HRI sagði:
„Þýska hagkerfið er í miðjunni á stærstu kreppu í sögunni eftir stríð. Heimsfaraldurinn, orkukreppan og verðbólgan hafa gert Þjóðverja að meðaltali fátækari.“
HRI er ekki eini aðilinn með þá skoðun. Í desember lækkaði þýski seðlabankinn hagvaxtarspá sína fyrir árið 2025 í 0,2% frá 1,1% spá í júní. Þjóðverjar hafa langmestar áhyggjur af efnahag landsmanna samkvæmt skoðanakönnunum fyrir þingkosningarnar 23. febrúar.
Eftir slæma efnahagslega frammistöðu brennur jörðin undir fótum Robert Habeck efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann er heimspekifræðingur og frambjóðandi Græningja til kanslara í komandi kosningum. Orðrómurinn á götunni gerir grín að því, að verði Habeck næsti kanslari Þýskalands, þá þarf fljótlega að setja Þýskaland í efnahagslega gjörgæslu.
Nius fréttastofan hefur birt gögn um útlán Creditreform, sem sýna að gjaldþrot fyrirtækja voru um fjórðungi fleiri árið 2024 samanborið við 2023: 22.400 fyrirtæki urðu gjaldþrota sem er mesti fjöldi síðan 2015. Gjaldþrotum neytenda fjölgaði um 8,5% í rúmlega 72.000. Lánatryggingafélagið Allianz Trade býst við enn fleiri gjaldþrotum árið 2025, þar á meðal fleiri gjaldþrotum neytenda.
Níus segir ástandið slæmt og helmingi fleiri eru svartsýnir en þeir sem líta björtum augum á afkomu sína 2025. Ifo viðskiptavísitalan hélt áfram að lækka í desember og náði lægsta stigi síðan í maí 2020. Ekki líður ein vika án þess að iðnaðarfyrirtæki tilkynni ekki um uppsögn starfsmanna. Samdráttur í fjárfestingum þýðir einnig færri störf. Þýskaland er á siglingu inni í vítahring.
Uppsagnir eru flestar hjá framleiðslufyrirtækjum og í byggingariðnaðinum. Þó að skýrsla HRI sýni smá fjölgun á vinnumarkaðinum í 46,1 milljón manns á síðasta ári, þá er reiknað með fækkun starfa um 10.000 mánaðarlega í ár.
HRI sér engin merki um aukna neyslu. Þótt merkja megi smáhækkun kaupmáttar, þá hefur verðbólgan bitið sig fast og almenningur heldur að sér höndunum. Samkvæmt könnun Ipsos í desember telja aðeins 38% Þjóðverja að landið sé á réttri leið.