Þjóðólfur náði mitt í önnum dagsins sambandi við Arnar Þór Jónsson lögmann, formann Lýðræðisflokksins og fyrrverandi forsetaframbjóðanda. Arnar skrifaði á blog.is um bókun 35 sem einnig má lesa um hér á Þjóðólfi, þar sem hann skýrir hvers vegna þjóðin má undir engum kringumstæðum láta viðgangast að ráðamenn geti komið þeirri samþykkt í gegn um þingið. Hann segir Íslendinga verða í fjötrum og segir hlutverk alþingis verða eins og þegar að danakóngur lokaði alþingi ár 1800 hripleku og köldu. Þá er fáránlegur og óboðlegur stríðsæsingur ráðamanna vegna Úkraínustríðsins og hrokafull framkoma gagnvart þeim sem vilja skapa frið í Úkraínu ræddur í þættinum (sjá að neðan). Arnar Þór vísar vísar til prófessors Jeffrey Sachs sem útskýrir aðdraganda Úkraínustríðsins sem er allt annar en íslenskir ráðherrar gefa í skyn vegna eftiröpunar á stefnu ESB.

Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að endurflytja frumvarp um bókun 35 sem er vægast sagt umdeilt. Ríkisstjórnin hefur einnig boðað að kosið verði um ESB ár 2027 og fyrsta ferð forsætisráðherrans og utanríkisráðherrans var til Brussel til að „koma á eðlilegum samskiptum við ESB.“ Það þýðir að ríkisstjórnin sér það sem sitt aðalverkefni að koma þjóðinni undir ægishjálm Evrópusambandsins. Arnar Þór gagnrýnir háttsemi ráðherra og þingmanna sem ekki eru að vinna fyrir íslenska hagsmuni, heldur ánetjast erlendum gylliboðum og hag erlendra ríkja.
Ráðherrar tala eins og þeir séu málaliðar erlends herveldis
Ríkisstjórnin leggst eindregið gegn friðarumleitunum í Úkraínu og vill framhald blóðugrar styrjaldar sem slátrar mannslífum gjörsamlega að óþörfu. Arnar Þór segist biðja ráðamenn „að halda stillingu sinni og róa sig niður.“ Arnar Þór segir:
„Íslenskir ráðamenn ættu nú bara að róa sig frammi fyrir því sem er að gerast í heimsmálunum og minna sig á það, að við erum örþjóð norður í höfum sem höfum aldrei verið á þeim stað að vilja reka íslenskan her. Við höfum stært okkur af því, að við séum friðelskandi þjóð og herlaus. Því víkur einkennilega við að sjá fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi utanríkisráðherra og forsætisráðherra tala eins og þær séu málaliðar erlends herveldis.“
„Við þurfum sem almennir borgarar að veita þessum konum aðhald. Við Íslendingar erum að stefna að því að verða eins konar kvennaríki, þar sem konur sitja á öllum valdastólum, hvort svo sem það eru lögreglustjórastöður út um allt land, biskupsstöður, ríkislögreglustjóri, saksóknari, ráðherrar eða formenn í stjórnmálaflokkum eða forsætisráðherra eða forseti.“
Ástæður Úkraínustríðsins ekki eins einfaldar og valkyrjur látast
Arnar Þór vísaði til prófessors Jeffrey Sachs sem útskýrir aðdraganda Úkraínustríðsins sem er allt annar en íslenskir ráðherrar gefa í skyn í eftiröpun sinni á ummælum ESB. Prófessor Jeffrey Sachs hefur verið iðinn við að útskýra aðdraganda Úkraínustríðsins en þar koma fram hlutir sem ráðandi stjórnmálamenn reyna að þegja í hel.
Arnar Þór Jónsson vitnar í fréttir fjölmiðla eins og CNN sem greindi frá árásum og drápum Kænugarðsstjórnar á eigin landsmönnum í austurhluta landsins eftir valdaránið 2014. Þannig er hægt að rekja aðdraganda átaka dagsins í dag langt aftur í tímann fyrir innrás Pútíns fyrir þremur árum síðan í febrúar 2022.
Arnar Þór gefur áfram kost á sér til að leiða Lýðræðisflokkinn og fullveldisbaráttuna
Arnar Þór Jónsson tilkynnti að hann muni halda baráttunni áfram fyrir fullveldi þjóðarinnar og að Lýðræðisflokkurinn muni halda flokksfund bráðlega. Hann lýsti því sem að honum hafi verið skotið úr teygjubyssu að taka þátt í tveimur kosningum á síðasta ári og tók hann sér kærkomið leyfi til að hvílast og hugsa um málin og taka ákvörðun um framhaldið. Mörgum til gleði segir Arnar Þór að hann muni halda baráttunni áfram. Fáir geta tjáð sig með þeim hætti sem hann gerir enda gjörkunnugur regluverki og sögu lands og þjóðar. Það er frekar til dæmis um sjálfheldu stjórnmálanna að Arnar Þór hefur rekist á veggi eins og til dæmis í Sjálfstæðisflokknum sem hleypti honum ekki lengra en í varaþingmannssæti. Arnar Þór sagði í lokin það vera spurningu hvað gerðist með litla essið í Sjálflstæðisflokknum sem heldur Landsfund á næstu dögum. Arnar Þór bendir á í viðtalinu að allt of margir sjálfstæðismenn rísa ekki undir stóru essi og megna ekki að standa á grundvelli þeirrar sjálfstæðisstefnu sem setti flokkinn og foringja hans í hóp fremstu skörunga lýðveldisins við og eftir stofnun 19. júní 1944.
Hér hafa landsmenn verk að vinna undir forystu Lýðræðisflokksins sem stofnaður var til að takast á við þá spillingu sem ræður og andstæðingar fullveldis okkar nýta til að komast yfir auðlindir Íslands.
Horfðu á viðtalið hér að neðan: