Þegar kosningaúrslitin lágu fyrir kom í ljós að ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir hafa allir beðið afhroð. Mesta afhroð fengu Vinstri grænir sem þurrkuðust út sem þingflokkur. Framsóknarflokkurinn tapaði 8 af 13 þingmönnum og hefur núna fimm. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tveimur þingmönnum, fer úr 16 þingmönnum niður í 14. Flokkurinn fékk aðeins 19,4% atkvæða sem er versta útreið í sögu flokksins.
Eftir að 25% kjósenda flúðu ríkisstjórnarflokkana, þá dreifðust atkvæði þeirra á Samfylkingu, Viðreisn, Miðflokk og Flokk fólksins. Samfylkingin bætti við sig níu þingmönnum og hefur 15, Viðreisn bætti við sig sex þingmönnum og hefur 11, Miðflokkurinn bætti við sig fimm þingmönnum og hefur átta og Flokkur fólksins bætti við fjórum þingmönnum og hefur tíu.
Píratar er annar flokkur sem þurrkaðist út af þingi og missti sex þingmenn. Hreyfing kjósenda er því með tilliti til Pírata vel yfir 30% sem leita að öðrum valkosti en þessir flokkar hafa boðið upp á. Greinilega eru kjósendur að leita að valkosti við ríkisstjórnarflokkana sem fylgt hafa pólitískum rétttrúnaði, kolfallið fyrir hræðsluáróðri um hamfarahlýnun og skuldbundið þjóðina með fjáraustri í græna vítið og vopnasendingar til Úkraínustríðsins. Hallarekstur ríkissjóðs hefur einnig verið nefndur sem og vaxtaokur hrægamma á húsnæðismarkaði ásamt verðbólgu.
Spillingaröflin hlæja
Spurning eftir niðurstöðu kosninganna er af hverju svo margir óánægðir kjósendur kasta sér í faðm eins stærsta svikaflokks Íslands, Samfylkingarinnar ásamt kúlulánasvindlaraflokki Viðreisnar. Þau öfl sem orsökuðu fjármálahrunið 2008 á Íslandi höfðu aðallega Samfylkinguna sem pólitískan grundvöll samanber forstjóra Baugs, Jón Ásgeir Jóhannesson, sem fór með fjármálaveldi sitt í þrot og hundruð milljarða króna „hurfu.“
Samfylkingin hefur alla tíð beitt landsmenn svindlbrögðum samanber umsókn meirihluta Alþingis í nafni þjóðarinnar um aðild að ESB. Ekki er útséð hvernig endirinn verður á því máli. Samfylkingin og Vinstri grænir reyndu líka allt sem þau gátu til að hengja skuldir skjólstæðinga sinna um háls komandi kynslóða með tillögum um Icesave sem þjóðin hafnaði oftar en einu sinni. Síðasta tilraunin gegn þjóðinni hafði nafn Bjarna Benediktssonar á pappírnum. Blessunarlega hafnaði þjóðin þeirri tillögu en Bjarni Ben lýsti frati á meiri hluta kjósenda sem völdu dómstólsleiðina og unnu málið. Bjarni fullyrti að hans tillaga hefði verið betri.
Samfylkingin er búin að eyðileggja höfuðborg landsmanna Reykjavík með þéttbyggingu og fjármálasvindli sem best er lýst með stjarnfræðilegum kostnaði danskra puntstráa við frægasta bragga landsins. Að Dagur B. Eggertsson, annálaður svikahrappur og svindlari, skuli hafa verið settur á framboðslista Samfylkingarinnar og kosinn á þing sýnir meintan áframhaldandi svikavilja flokksins við landsmenn. Verði sama stefna í landsmálum og Samfylkingin hefur í borgarmálum, þá verður landinu hrint út í þvílíkt skuldafen að auðlindir landsmanna munu ekki duga til að greiða kostnaðinn.
Skortur á alvöru Íhaldsflokk
Kjósendur hafa ekki í þessum kosningum getað kosið neinn alvöru valkost við stjórnmálaspillinguna í landinu. Hinn nýi Lýðræðisflokkur, sem kemst næst því að vera íhaldsflokkur, fékk aðeins eitt prósent atkvæða. Það verður að teljast afrek út af fyrir sig vegna þess að flokkurinn var stofnaður aðeins tveimur mánuðum fyrir kjördag. Á svo stuttum tíma er ekki hægt að ná að kynna stefnu og störf nýs flokks. Arnar Þór Jónsson vann ötullega að kynningu en mætti bæði útúrsnúningum og hatri fólks sem stendur ógn af opinni umræðu í samfélaginu.
Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er vandinn mikill. Flokkurinn er kominn niður í sögulegt lágmark hjá þjóðinni. Svik flokksins við lýðveldið með orkupökkum og tillögu um afsal fullveldisins með bókun 35 ásamt lokun sendiráðs Íslands í Moskvu og þátttöku Íslands með vopnasendingum í Úkraínustríðinu, eru réttmætar ástæður fyrir íhaldsmenn að kjósa ekki flokkinn. Í 25 kosningum áður en Bjarni Benediktsson tók við formennsku hafðu flokkurinn einungis einu sinni farið undir 30% atkvæða, þegar Þorsteinn Pálsson sem síðar fór til Viðreisnar leiddi flokkinn. Þegar Bjarni Benediktsson tók við forystu og leiddi flokkinn 2009 fór flokkurinn í annað skipti í sögunni undir 30% mörkin. Síðan hefur þróun flokksins verið á einn veg og er núna í 19,4% í fyrsta skiptið í sögu flokksins. Síðan er útkoman réttlætt sem „varnarsigur.“
Skiptir flokkurinn ekki um forystu mun Sjálfstæðisflokkurinn enda sem miðlungsflokkur sem aldrei nær yfir 20% mörkin og slæst um atkvæði fólks sem vinnur hjá því opinbera. Sjálfstæðisflokkurinn verður að gera upp aðkomu sína að fjármálahruninu og daðri við alþjóðastofnanir eftir það.
Því ber að fagna að Vinstri grænir og Píratar eru horfnir af þingi. Samtímis hafa útrásarsvindlarar fengið byr undir vængi vegna skorts á íhaldssömum valkosti. Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðum næstu daga.