Þingmenn og ráðherrar hafa ekkert umboð til að fara þannig með fjöregg þjóðarinnar

Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, hélt erindi á fundi um bókun 35 í gær (sjá myndskeið neðar á síðunni). Þar nefndi hann allt sem færi forgörðum aftur í Jónsbók ef bókun 35 verður samþykkt á Alþingi. Í dag skrifar hann pistil á blog.is þar sem hann rekur reglugerðafarganið sem dembist yfir Ísland frá ESB og vekur athygli á þeirri „kalkúleruðu áhættu“ sem stjórnmálamenn taka án þess að hafa til þess nokkurt umboð þjóðarinnar. Þingmenn sverja eið að stjórnarskránni en ætla að munu uppræta hana með bókun 35.

Arnar Þór Jónsson skrifar:

Hvað kallast „kalkúleruð“  áhætta ef enginn hefur raunverulega metið áhættuna?

Hver er stærsta eiturpillan í eftirfarandi frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35? Þar segir orðrétt:

Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingusamkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. [Leturbr. AÞJ]

Árlega er mikilll fjöldi EES gerða (reglugerðir, tilskipanir) innleiddar í íslenskan rétt. Með varfærni má áætla að hvert ráðuneyti, sem nú eru 12 að tölu, gefi út um 20 innleiðingarreglugerðir á ári. Auk ráðuneytanna hefur Alþingi veigamiklu hlutverki að gegna við innleiðingu EES réttar. Á vef Alþingis má sjá – og það hefur skrifstofa þingsins staðfest – að um fimmtungur stjórnarfrumvarpa á 151. löggjafarþingi var upprunninn í ESB, þá er átt við fjölda en hvorki tekið tillit til umfangs eða mikilvægis, sem þess vegna gæti verið miklu stærra hlutfall – þótt erfitt kunni að vera að meta/mæla nákvæmlega.

Fjöldi skuldbindinga sem Ísland undirgengst með hverri EES tilskipun og reglugerð fer eftir eðli og umfangi gerðarinnar sem um ræðir. Fjöldinn getur verið frá 1-5 (einföld tilskipun) upp í tugi og jafnvel meira en 100 (ef um er að ræða flóknar tilskipanir). Stór reglugerð getur falið í sér tugi og jafnvel hundruðir skuldbindinga fyrir aðildarríki. 

Allir vita að í rúmlega 30 ára sögu EES hefur Ísland aldrei beitt neitunarvaldi. Allt þetta þýðir að geigvænlegt magn af lagareglum (og þar með skuldbindingum) rennur viðstöðulaust í gegnum kerfið án þess að nokkur hafi heildaryfirsýn yfir þær skuldbindingar sem í þessu felast. Ef enginn hefur yfirsýn, þá er ekki einu sinni hægt að segja að verið sé að taka „kalkúleraða áhættu“. Slík áhættutaka með hagsmuni lands og þjóðar er óforsvaranleg. Þingmenn og ráðherrar hafa ekkert umboð til að fara þannig með fjöregg þjóðarinnar. 

Hér að neðan má hlýða á erindi Arnar Þórs á fundinum í Seltjarnarneskirkju í gær:

Fara efst á síðu