J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hélt afar hressilega og fyrir alla frelsisunnendur kærkomna ræðu yfir hausamótum elítu Nató og ESB ásamt sendinefnd Úkraínu á öryggisráðstefnunni í Munchen í dag (sjá YouTube að neðan). Ráðstefnunni er ætlað að móta næstu skref Nató og ESB í Úkraínustríðinu sem aðstoðarforseti Bandaríkjanna nefndi varla á nafn og véfréttasmiðir Vesturlanda reyna sveittir að skýra. Aðalboðskapur varaforsetans var, að ef maður þorir ekki lengur að ræða við kjósendur og venjulegt fólk og yfirgefur málfrelsið, sjálfan hornstein lýðræðisins, þá verður ekki um neitt öryggi að ræða lengur.
Óhætt má segja að elítufólkið, stjörnum hlaðnir herforingjar, stríðsæsingamenn ESB sem ætla að sigrast á Rússlandi og helst stykkja niður í smærri ríki, hafi ekkert vitað hvaðan á sig stóð veðrið. Fréttaskýrandi sænska sjónvarpsins skildi ekkert hvað Vance var að fara og lýsti ræðunni sem ósamanhangandi stríðsyfirlýsingu gegn Evrópu! Vókuð elítan og blaðamenn þeirra munu aldrei skilja ræðuna, því hún byggði á þeim sjálfsagða grunni Bandaríkjanna, að málfrelsið sé hornsteinn hins frjálsa heims.
Evrópa líkist sífellt meira gamla Sovét
J.D. Vance sagði að óvinurinn væri hvorki Rússland, Kína eða neinn annar ytri aðili. Það sem hann óttaðist mest væri hættan sem kæmi innan frá. Að Evrópa félli frá grundvallargildum málfrelsis og lýðræðis sem hún hefur deilt með Bandaríkjunum. Vance sagði:
„Ástandið er farið að minna á, þegar gamlir, rótgrónir hagsmunir földu sig á bak við ljót orð Sovéttímabilsins eins og falsupplýsingar og misvísandi upplýsingar, þar sem manni líkaði einfaldlega ekki við þá hugmynd að einhver hefði önnur sjónarmið og gæti tjáð aðra skoðun eða – Guð forði okkur – kosið á annan hátt eða það sem er enn þá verra – unnið kosningar.“
Sem dæmi nefndi Vance að rúmensku forsetakosningarnar hefðu verið dæmdar ógildar, kóranbrennuaðgerðarsinni hefði verið dæmdur fyrir hatur gegn þjóðfélagshópi eftir að vinur hans Salwan Najem sem einnig var kóranbrennari, var myrtur í Svíþjóð. Bretland og Þýskaland fengu einnig pillur vegna undanhalds lýðræðis í löndunum tveimur en í Þýskalandi reyna stjórnarflokkarnir að finna leiðir til að gera það sama og Hitler gerði við kommúnistaflokkinn: mynda bandalag til að banna Valkost fyrir Þýskaland.
Fyrst við höfum þolað Grétu Thunberg í mörg ár þá ættuð þið að þola Elon Musk í nokkra mánuði
Það var ferskur andi sem blés í sal fullum af sjálfuppteknu hrokagikkum þeirra merkilegu, valdhafa Nató og ESB sem – ef þeir voru ekki sofandi – supu hveljur yfir þessari frelsisrödd frá Bandaríkjunum. Vance fór yfir innflytjendamálin og gagnrýndi hömlulausan innflutning sem flytti með sér einstaklinga eins og þann brjálæðing sem nýlega keyrði inn í mannhaf fólks í bænum og særði fjölda manns. „Hversu mörg þannig ódæði eigum við að þurfa að sjá áður en við gerum eitthvað?“
Hann ræddi áfram um lýðræðið:
„Við verðum að gera meira en bara að tala um lýðræðið. Við verðu að lifa samkvæmt því. Ef þið í Evrópu eruð á flótta frá kjósendum, þá er ekkert sem Bandaríkin geta gert fyrir ykkur.“
Hann sendi fína gagnrýnispillu á valdhafa Bretlands og Þýskalands sem vilja helst koma Elon Musk í fangelsi með munnkefli svo það sé öruggt að hann geti ekki sagt eitt aukatekið orð:
„Fyrst við höfum getað þolað Gretu Thunberg í mörg ár, þá hljótið þið að geta þolað Elon Musk í nokkra mánuði.“