Það verður að endurskoða „Grænu umskiptin“

Göran Värmby, byggingarverkfræðingur og fyrrverandi yfirmaður umhverfismála í Gautaborg skrifar í umræðugrein í Samnytt að afskaplega skrýtnir hlutir séu að gerast í hinum svo kölluðu „grænu umskiptum.“ Losun umhverfisspillandi efna er leyfð, augljósar eftirlitsmælingar vantar, rannsóknir sem geta bent á vandamál vegna grænnar orku fá enga fjárveitingu, gífurlegum upphæðum af fé skattgreiðenda sé gagnrýnislaust eytt og án nokkurrar endurskoðunar. Það eina sem skiptir máli er að „bjarga loftslaginu.“

Græn umskipti hafa breyst í mál sem snýst nánast eingöngu um að „bjarga loftslaginu.“ Ekki er tekið tillit til umhverfisskaðlegrar losunar í loft, vatn eða á landi. Versta dæmið er kannski útbreiðsla hins eilífa PFAS, sem hefur viðgengist á heimsvísu í nokkra áratugi án nokkurra teljandi ráðstafana. PFAS er samheiti sem nær yfir um 10.000 mismunandi tegundir af flúor-alkýlefnum og er af sumum talið verra en DDT og PCB hneykslin. Nánast allri athygli er beint að loftslagsmálunum. ESB úthlutar þúsundum milljarða króna til „loftslagsaðgerða.“ Aðgerðir gegn losun hættulegra mengandi efna fá varla neitt til samanburðar.

Verkefni innan grænu umskiptanna eru einfaldlega ekki endurskoðuð, hvorki út frá umhverfisverndar- né efnahagslegu sjónarmiði.

Ég sé mynstur: Verkefni innan grænna umskipta eru einfaldlega ekki endurskoðuð, hvorki frá umhverfisverndarsjónarmiðum né efnahagslegu sjónarmiði. Er ekki mikilvægt að grípa til ráðstafana og úrbóta ef vandamál koma upp með vindorku, rafbíla, „grænt stál“ og fleira?

900 tonn á ári af „verstu aðilum“ efnaiðnaðarins

Metið í slappleika er slegið í Eskilstuna. Kínverska fyrirtækið Shenzhen Senior Material mun framleiða plastfilmu þar fyrir Northvolt og aðra rafgeymaframleiðendur. Þeir hafa nýlega fengið leyfi frá Efnaeftirlitinu til að losa 900 tonn á ári af metýlenklóríði, tvöfalt meira en losað var í allri Svíþjóð árið 1996. Efni sem var bannað í Svíþjóð sama ár vegna skaðlegra áhrifa þess á fólk og umhverfi. En núna er allt í einu gerð undantekning. Losun á 900 tonnum á ári frá einum af „verstu aðilum“ í efnaiðnaðinum er þannig leyfð án þess að jafnvel íbúar í nágrenninu fái viðeigandi upplýsingar. Þetta er miklu meira en við hjá lénsstjórninni leyfðum olíuiðnaðinum í Stenungsundi að losa í sambærilegum efnum fyrir 45 árum.

Nágrönnum í kringum verksmiðju Senior hefur ekki verið sagt neitt um eiturefnalosunina. Þeim sem boðið var til samráðs var heldur ekki sagt, hversu hættulegt efnið er eða hvaða sjúkdómum það getur valdið. Það kemur í ljós þegar Dagens Arbete bankar upp á. – Er það í alvörunni? 900 tonn út um reykháfinn? spyr Kauko Hirvonen (Dagens Arbete 27. júní 2024).

Åke Bergman við Stokkhólmsháskóla, einn fremsti sérfræðingur Svíþjóðar um eiturefni í umhverfinu, hittir naglann á höfuðið þegar hann segir „það er eins og hægt sé að gera nánast hvað sem er í nafni grænu umskiptanna.“

Engar mengunarmælingar á snúningsblöðum vindmylla

Næsta dæmi er vindorkan, þar sem fyrirtækin ganga með um 40% tapi árlega. Á sama tíma hefur enginn yfirsýn yfir hversu mikla mengun slit á snúningsspöðum vindmyllanna hefur á umhverfið með dreifingu örplasts og annarra eiturefna. Ég hef spurt fimm lénsstjórnir og engin hefur mælingar á losun örplasts frá snúningsblöðum vindmylla í eftirlitsáætlunum sínum. Einfaldari eftirlitsmæling verður varla gerð, það þarf bara að vigta blöðin fyrir og eftir notkun, þegar skipt er um þau. 70% fyrirtækjanna eru erlend – aðallega kínversk – og erfitt með fjárhagslegt eftirlit. Þar er heldur ekkert starfsfólk sem hægt er að heimsækja og ræða við. Allt er útvistað til þjónustufyrirtækja.

Það sem er mest ámælisvert er að vísindamenn sem sækja um styrki til að rannsaka losun örplasts úr snúningsblöðum fá enga styrki. Þrátt fyrir að iðnaðurinn og margir vísindamenn líti á þessa veðrun – vegna rigningar, snjóa, hagléls og vinds – sem stórt og dýrt vandamál.

Þungir rafbílar = meira af slitögnum dekkja í andrúmslofti

Dæmi númer þrjú er slit á dekkjum rafbíla. Samkvæmt rannsóknum á 37 verkstæðum í Danmörku á vegum fyrirtækisins Euromaster er tvöfalt meira slit á dekkjum rafbíla en annarra bíla. Ástæðan er umtalsvert meiri þyngd þeirra – 15–25% – ​​og aukinn snúningskraftur vélanna. Rannsókn sænsku orkumálastofnunarinnar árið 2013 sýndi að losun PM 2.5 slitagna – minnstu og hættulegustu agna sem hægt er að anda að sér – getur aukist um 50% ef þyngd bílsins eykst um 25%.

Við vitum í dag að agnir í andrúmsloftinu eru eitt stærsta heilsufarsvandamálið í þéttbýli. Í dag gefa dekk frá sér um það bil 2.000 sinnum meiri agnir út í loft og vatn en vélarnar sjálfar við venjulegan akstur. Dekkjaslit er einnig stærsta uppspretta losunar svokallaðs örplasts, þ.e.a.s plastagna sem eru minni en 5 millimetrar, sem er orðið mikið mengunarvandamál í hafi og vötnum. Erum við að sjá einhverja líflega umræðu eða nákvæma athugun á þessum ókostum rafbíla?

Starfsmenn deyja í rafhlöðuverksmiðjunni

Fjórða dæmið er rafhlöðuverksmiðjan Northvolt í Skellefteå, sem virðist hafa komist hjá venjulegri yfirferð og eftirliti yfirvalda. Hvernig stendur annars á því að þrír starfsmenn verksmiðjunnar hafa að undanförnu látist við óljósar aðstæður, þar sem vissulega er handleikið magn hættulegra efna.

Johan Stabbfors, sem fer með mál umhverfisglæpa á Norðurlandi. segir: „Það er einhver vísbending um að þeir hafi orðið fyrir fyrir einhverjum efnum.“ Á sama tíma las ég í Expressen 7. júlí að tveir starfsmenn til viðbótar séu slasaðir. Þeir eru sagðir hafa orðið fyrir raflausnargufu og hafa andað að sér efnunum, að sögn yfirmanns heilbrigðismála. Núna, þegar þetta er skrifað 11. júlí, sé ég í Rapport, að vinnuumhverfisfræðingur krefst þess að verksmiðjunni verði lokað þar til rannsókn á dauðsföllum er lokið. Tengist skortur á rannsókn á meðhöndlun Northvolt verksmiðjunnar á hættulegum efnum hugsanlega grænu umskiptunum?

Síðasta dæmið um græna iðnaðinn og jarðefnalaus loftslagsverkefni á Norðurlandi er kannski það augljósasta og stórbrotnasta, hvað varðar skort á greiningu og rannsóknum. Námur, vetnisknúin jarðefnalaus stálver, rafhlöðuverksmiðjur og vindorkuver eru hluti af fjárfestingu upp á ólýsanlega 1.400 milljarða sænskra króna. Til þess þarf viðbótarorkuframleiðslu sem samsvarar heildarorkuþörf Finnlands eða þrisvar sinnum meira en Danmörk. Engar lausnir til að anna þessari gífurlegu orkuþörf hafa enn verið kynntar. Ég hef heldur ekki séð neitt mat á umhverfisáhrifum. Öll verkefnin verða að vera fjármögnuð með aðstoð þinnar, minnar og annarra evrópskra skattgreiðenda. Þátttökufyrirtæki taka nánast enga áhættu, ef illa fer. Allri eðlilegri athugun og dómgreind hefur verið kastað á glæ. Hvað myndi „markaðurinn“ segja um þessar loftslagsfjárfestingar ef öll þátttökufyrirtækin væru skráð á verðbréfamörkuðum?

Það er afar merkilegt að umhverfishreyfingin og margir á meðal okkar sem vinnum að umhverfismálum hafi ekki spurt spurninga um þessar fjárfestingar og önnur dæmi sem ég hef sett fram. Það er ákaflega tímabært að ábyrg stjórnvöld, stjórnmálamenn og löggjafinn fari að endurskoða þessi svo kölluðu grænu umskipti, hvort þau séu raunverulega græn í alla staði.

Göran Värmby
Verkfræðingur

Fara efst á síðu