Taka ber upp skilyrtan ríkisborgarrétt

Aðsend grein. Aðsendar greinar eru á ábyrgð höfundar og endurspegla skoðanir viðkomandi.

Flatnefur skrifar:

Taka ber upp skilyrtan ríkisborgarrétt

Veita á dvalarleyfi í staðinn fyrir íslenskan ríkisborgararétt. Það eru mikil forréttindi að fá íslenskan ríkisborgararétt. Ég ávann minn ríkisborgararétt með ætt minni frá landnámi, þannig fékk ég minn ríkisborgararétt, því ég er frumbyggi.

En það er líka til fólk sem fær ríkisborgararéttinn á annan hátt og með því að sækja um hann. Eitt skilyrðið til að fá ríkisborgararétt er íslenskunám með prófi til dæmis eftir 7 ára dvöl á Íslandi.

En … það hefur komið mér á óvart hve létt það er. Það er nefnilega fjöldi fólks með íslenskan ríkisborgararétt og hefur meira að segja búið hérna í áratugi sem alls ekki talar íslensku.

Hvernig stendur á því? Eru engar kröfur gerðar? Hvernig fékk það íslenskan ríkisborgararétt án þess að tala íslensku?

Ég hef sjálfur búið erlendis og hef lært tungumálið þar. Ég skildi mikilvægi þess að læra tungumálið, því það var lykillinn til að komast inn í þjóðfélagið og aðlagast því.

Íslenskum ríkisborgararétti útdeilt eins og sælgæti

Íslenskum ríkisborgararétti virðist vera útdeilt eins og hverju öðru sælgæti. Engar kröfur eru gerðar. Það vekur til dæmis athygli mína, að umsóknaraðilar þurfa ekki að mæta til sýslumanns til að sverja hollustueið við Ísland og íslensku þjóðina.

Jú, aðilinn er eftir allt að fara að gerast Íslendingur og hafa íslenska hagsmuni að leiðarljósi. Af hverju er ekki skylda að láta viðkomandi sverja hollustueið? Hjónabandseiður er hollustueiður. Sama á að gilda um ríkisborgararétt.

Það á að hætta að gefa út íslenskan ríkisborgararétt og veita dvalarleyfi í staðinn. Margar þjóðir í kringum okkur eru farnar að beita því úrræði að afturkalla ríkisborgararéttindin og setja skilyrði fyrir að hægt sé að öðlast slík réttindi. Skilyrtur ríkisborgararéttur. Það þarf að fara að huga að slíku hér á Íslandi líka.

Og þeir sem hafa fengið ríkisborgararétt og hafa framið glæpi, – þeir eiga umsvifalaust að verða sviptir sínum íslenska ríkisborgararétti. Þeir hafa fyrirgert rétti sínum með því að skaða friðsamlegt þjóðfélag okkar.

Fjölda þjóða gera það eins og Katar, Vatíkanið, Liechtenstein, Bútan, Sádí-Arabía, Kúveit, Sviss, Kína, Norður-Kórea, Japan og fleiri. Þau veita ekki ríkisborgararéttindin svo auðveldlega, það er næstum því ómögulegt að fá ríkisborgararétt.

Allt í skötulíki í stjórnsýslunni

Dvalarleyfi er leiðin fyrir útlendinga til að dveljast í landinu. Það mætti einnig athuga ef aðili er giftur innlendum aðila og þau eiga barn saman. Barnið á að sjálfsögðu að fá sjálfkrafa ríkisborgararétt…og þá helst tvöfaldan, – einnig frá heimalöndum foreldra.

Síðan er það spurning með Alþingi – af hverju eru Alþingismenn að veita ríkisborgararéttindi? Það býður upp á spillingu og geðþóttaákvarðanir. Það bera að stöðva STRAX! Við erum með regluverk fyrir slíka hluti, en reyndar afar veikt.

Það er allt í skötulíki í stjórnsýslunni hérna. En Alþingismenn sem misnota pólitískt vald sitt eiga ekki að spreða út íslenskum ríkisborgararéttindum svo að þeim líði sjálfum betur persónulega. Það er nóg að gefa út dvalarleyfi, það á að hætta að gefa út íslenskan ríkisborgararétt eða alla vega framlengja frestinn til að fá hann í 20 ár að lágmarki.

Höfundur skrifar undir nafninu Flatnefur

Heimildir:
https://www.jagranjosh.com/general-knowledge/most-hardest-countries-to-getcitizenship-1695031484-1

Fara efst á síðu