Sænsku vindorkuverin hreyfast ekki. Næstum öll ný verkefni eru stöðvuð, fjárfestar flýja landið og loforð um bætur til sveitarfélaga eru ekki efnd. Allt bendir til þess að heil iðngrein sé í þann mund að leggjast niður.
Algjört stopp fyrir nýjar virkjanir
Í tvo ársfjórðunga í röð hafa engar nýjar vindmyllur verið pantaðar. Neitunarvald sveitarfélaga og andmæli hersins hafa leitt til þess að 95% allra fyrirhugaðra verkefna hafa verið stöðvuð, að því er Dagens Nyheter (DN) greinir frá. Ina Müller Engelbrektson, lögfræðingur hjá Green Power Sweden, segir að „næstum allt sé í kyrrstöðu.“
Samtímis eru þegar samþykktar fjárfestingar dregnar til baka. Kriegers Flak verkefni Vattenfall er í biðstöðu og mörg vindorkufyrirtæki hafa farið á hausinn í sumar. Dagens Nyheter fjallar einnig um helstu ástæður þróunarinnar.
Áhuginn á að byggja vindorkuver í Svíþjóð hefur dalað hratt. Samkvæmt skýrslu frá greiningarfyrirtækinu ELS kjósa fjárfestar frekar Þýskaland og Suður-Evrópu, þar sem leyfisferli eru styttri og ríkið kemur inn í með fjárhagslegan stuðning.
Í Svíþjóð eru verð á rafmagni í norðurhluta landsins oft svo lágt að vindmyllurnar eru reknar með tapi. Er það vegna þess að þegar mikið rafmagn er framleitt þegar vindur blæs, þá lækkar rafmagnsverðið og étur upp hagnaðinn og meira til.
Afturhvarf frá vindorkunni

Til að auka stuðning sveitarfélaga við vindorkuna, þá lagði ríkisstjórnin til að 340 milljónir sænskra króna yrði varið til sveitarfélaga með vindmyllur árið 2025. Enn sem komið er hefur ekkert fjármagn verið borgað, þrátt fyrir að sænska þingið hafi þegar ákveðið fjárlögin. Erik Lövgren (S), formaður sveitarstjórnarinnar í Ånge segir:
„Við reiðum okkur á þessa peninga.“
Ríkisstjórnin segir að málið sé enn í undirbúningi og óljóst hvenær peningarnir koma.
Með lítinn sem engan fjárfestingaráhuga, efnahagslega áhættu og andspyrnu sveitarfélaga hefur framtíð vindorkunnar snarbreyst til hins verra og er núna kolsvört. Sænska ríkisstjórnin ætlar að byggja út kjarnorku sem orkugjafa í Svíþjóð sem býður upp á stöðugleika í framleiðslu og efnahagslega sjálfbærni í stað óstöðugleika og tapi vindorkunnar.
Samtímis keppa íslensk yfirvöld við það að endurtaka mistök Svía sem núna hafa komið í ljós og ætla að byggja vindorkuver sem vitað er fyrir fram að geta hvorki verið hagkvæm fjárfesting né stöðugur orkugjafi til lengri tíma litið.