Dagens Nyheter greinir frá því, að sænska ríkið hafi ekki fengið einseyring til baka af þeim 40 milljörðum sænskra króna sem hafa verið eyrnarmerktir Svíþjóð eftir kórónufaraldurinn. Að sögn DN yrði Svíþjóð neitað um greiðslur úr sjóðnum, þótt umsókn yrði send inn, vegna vanefnda í losunarmálum.
Svíþjóð er eina ESB-landið sem hefur ekki sótt um peninga úr kórónasjóði ESB. Sjóðurinn er gagnrýndur fyrir að vera risastór endurúthlutun fjár frá norður-evrópskum skattgreiðendum til ESB-landa með lágan vinnumóral og eftirlaunaaldur.
Uppfylla ekki lengur losunarkröfur sjóðsins
Af þeim 150 milljörðum sænskra króna sem Svíar hafa greitt til sjóðsins á Svíþjóð rétt á að fá 40 milljarða kr. endurgreiddar. En hingað til hafa Svíar ekki fengið eina einustu krónu úr sjóðnum.
Ástæðan fyrir því að Svíar hafa ekki sótt um peninga er sú, að núverandi ríkisstjórn hefur lækkað kröfuna um blöndun lífeldsneytis í jarðefnaeldsneyti. Það þýðir að Svíþjóð uppfyllir ekki lengur losunarkröfur sem tengjast greiðslum úr sjóðnum.
Þrátt fyrir að ekkert fé hafi verið greitt út, þá hefur Svíþjóð þegar staðið í mörgum fjárfestingum sem eiga að vera fjármagnaðar af sjóðnum t.d í járnbrautakerfinu og í náttúruverndarverkefni sem sænska Umferðarráð og Umhverfisverndarstofnunin hafa staðið fyrir og kosta rúmlega þrjá milljarða sænskra króna.
Elisabeth Svantesson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, segist viss um að Svíar fái peningana sína. Hún er ekkert að flýta sér, þar sem Svíþjóð hefur frest til ársloka 2026 til að skila inn greiðsluumsóknum. Að sögn DN hafði ríkið hins vegar gert ráð fyrir að fá greiðslur úr sjóðnum þegar á þessu ári og bendir á fjárlagafrumvarp í september í fyrra.
Sósíaldemókratinn Mikael Damberg, gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að fylgja ekki grænu umbreytingunum nægjanlega vel eftir og telur að stjórnvöld verði að axla ábyrgð á því að hafa breytt umsaminni losunaráætlun.