Aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóða Ebba Busch taldi um hatursáróður vera að ræða og málið kært án árangurs.
Frá því að hryðjuverkasamtökin Hamas myrtu yfir 1.200 Ísraela og særðu um 8.700 til viðbótar í árásinni þann 7. október 2023 hafa ýmsar öfgavinstrihreyfingar mótmælt hernaðaraðgerðum Ísrael gegn hryðjuverkaböðlum Hamas. Mótmælin verða sífellt hatursfyllri eins og á dögunum í Umeå í Norður – Svíþjóð, þar sem hengdar voru upp gyðingadúkkur í snöru með gyðingastjörnu nazista og fyrir ofan var borði með textanum Þjóðarmorð er þjóðarmorð er þjóðarmorð.
Mótmælendur líktu stríði Ísraels gegn Hamas við Helför nazismans gegn Gyðingum. Skilaboðin voru skýr: Gyðingar í dag eru eins og Hitler gærdagsins. Hamasliðar í dag í hlutverki Gyðinga sem nazistar slátruðu í gær. Mörgum fannst þessi boðskapur óhugnanlegur, meðal annars taldi aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar, Ebba Busch að að verið væri að brjóta haturslög í Svíþjóð með hatursáróðri gegn Gyðingum. Málið var kært til sænsku lögreglunnar en fékk engan hljómgrunn. Saksóknarinn lagði rannsókn málsins niður og lýsti því yfir, að það væri ekkert Gyðingahatur að bera saman stríðið á Gaza við Helför nazista og sýna Gyðingadúkkur dinglandi í snöru öllum til sýnis.
Það var fyrir rétt rúmri viku síðan myndum af „listaverki“ með hengdum Gyðingadúkkum í Umeå var dreift á samfélagsmiðlum. Dúkkurnar voru klæddar í föt fanga í nasistabúðum seinni heimsstyrjaldarinnar og báru Davíðsstjörnur, sem var sérstök merking Gyðinga sem átti að slátra. Tilgangur listaverksins var að líkja stríði Ísraels gegn Hamas við útrýmingu nazista á Gyðingum í Helförinni.
„Þjóðarmorð eru þjóðarmorð eru þjóðarmorð“ stóð á borða fyrir ofan dúkkurnar sem héngu í hengingarsnörunum.
Listaverkið var kært til lögreglu sem hatur gegn Gyðingum en saksóknari ákvað að hætta rannsókn málsins á þeim forsendum að „hlutlæg heildarmynd af samhenginu telst ekki tjá ógnir eða fyrirlitningu gagnvart Gyðingum.“ Yfirsaksóknari Irene Falk segir:
„Sú túlkun sem kærendur virðast hafa gefið er sú að skilaboðin feli í sér hvatningu gegn þjóðfélagshópi Gyðinga. Ég geri ekki sama mat. Ég tel að hvorki skilaboðin sem uppsetningin á staðnum miðlar né myndirnar sem dreift var á Instagram séu ætlaðar til að ógna eða tjá fyrirlitningu á Gyðingum sem þjóðfélagshóp. Matið verður að vera hlutlægt út frá heildarmynd af samhenginu og hvötum verknaðarins.“
Saksóknarinn mat það svo að höfundar listaverksins hafi ekki dreift skilaboðum sem falla undir ákvæði um hatur gegn þjóðfélagshóp og lagði niður rannsókn, þar sem engin ástæða var til að ætla að glæpur hafi verið framinn. Irene Falk segir:
„Ég túlka skilaboðin þannig að höfundarnir telji að það sem er að gerast á Gazaströndinni sé þjóðarmorð, rétt eins og Helförin var. Sú staðreynd að maður virðist bera saman Helförina við átökin á Gazaströndinni þýðir ekki, að mínu mati, að maður afneiti, afsaki eða geri augljóslega lítið úr þjóðarmorðinu á Gyðingum.“