Svíþjóð: 70 ára kona fer í fangelsi fyrir að baka og selja snúða

Á sama tíma og margir óyndismenn, morðingjar og nauðgarar ganga lausir í Svíþjóð er kerfið á fullu eftir 70 ára gamalli konu sem reyndi að gefa lífinu gildi með snúðabakstri og sölu þeirra á kostnaðarverði. Pótintátarnir í sveitarstjórninni lögðu þá á hana sekt samsvarandi tæpum tveimur milljónum íslenskra króna. Konan sem er ellilífeyrisþegi á ekki fyrir sektinni og verður því látin dúsa í einn og hálfan mánuð í steininum.

Konan sem er bæði móðir og amma, hefur mikinn áhuga á bakstri. Hún byrjaði að segja frá snúðum sínum ár 2020 og seldi þá á kostnaðarverði, það er að segja sömu upphæð og hún lagði út fyrir efni í snúðana. Sveitarfélagið komst á snoðir um þetta framtak ellilífeyrisþegans og brást skjótt við og bannaði henni að baka snúða til sölu til vina og vandamanna á samfélagsmiðlum. Þegar konan hélt bakstrinum áfram, skellti sveitarstjórnin á hana 130 þúsund sænskra krónu sekt.

Bannað að sýna þvílíkt „hættulegt” einkaframtak

Það skipti ekki máli að konan seldi snúðana á kostnaðarverði, þ.e.a.s. rukkaði aðeins fyrir það sem hún sjálf lagði út. Að mati sveitarstjórnarinnar var betra að brauðin og snúðarnir sem hún bakaði þornuðu upp og mygluðu í stað þess að gleðja einhvern. Það var heldur ekki raunhæfur kostur að hún gæti torgað öllum bakstrinum sjálf. Sumt gaf hún barnabörnunum og sumt lét hún í frystinn.

Konunni fannst krafa sveitarfélagsins um að hún yrði að hætta bakstri ekki eðlileg. Hún neitaði því bæði að hætta bakstrinum og greiða háu sektina. Sveitarfélagið hélt þá áfram að senda áminningu um háu sektina og skipaði konunni að slökkva tafarlaust á bakaraofninum. Konan varð ekki við þessum kröfum sveitarfélagsins og hélt áfram að baka.

Sektinni breytt í fangelsisdóm

Í þessari störukeppni tapaði konan að lokum. Einstaklingurinn má síns lítils gagnvart ríki og sveitarfélagi. Núna verður hin bökunarglaða amma að skiljast við fjölskyldu og vini og dvelja í fangelsi í einn og hálfan mánuð. Neiti maður að borga sekt eins og amman gerði, þá er ekkert annað en að breyta sektinni í fangelsi fyrir viðkomandi. Verjandi hennar segir í athugasemd á TV4:

„Þetta hefur tekið mjög á taugar hennar og hún þjáist núna af þunglyndi.”

Mun áfrýja dómnum

Lögmaðurinn segir enn fremur að það sé óeðlilegt hversu sveitarfélagið gangi fram af mikilli hörku gegn ellilífeyrisþega sem hafi bara bakað brauð og sagt frá bakstrinum á Facebook. Miklu alvarlegri glæpi þarf til þess að lenda í fangelsi. Konan mun því áfrýja dómnum. Að gista á bak við rimla er of átakanlegt bæði líkamlega og andlega fyrir hana. Verjandinn segir:

„Hún er gömul og á við heilsufarsvanda að stríða og er ekki að sjá að hún geti þolað fangelsisvistina.”

Fara efst á síðu