Það er hreint ótrúlegt að fylgjast með byrlunarmálinu svo kallaða sem blaðamennirnir Páll Vilhjálmsson og Stefán E. Stefánsson eiga heiðurinn af að hafa upplýst. Páll Vilhjálmsson hefur lagt grundvöllinn í nokkur ár að uppljóstrun þessa morðtilræðis við skipstjórann Pál Steingrímsson. Skipstjórinn lá milli heims og helju eftir byrlun svefnlyfs á meðan fyrrverandi forsetaframbjóðandi, Þóra Arnórsdóttir, starfsmaður RÚV ásamt fleirum á þeim bæ, fékk síma hans til afritunar. Málið varpar ljósi á alvarlegustu stjórnmálaspillingu Íslands í seinni tíð og sér í lagi spillingu ríkisfjölmiðilsins sem skattgreiðendur eru neyddir til að borga fyrir.
Allir skilja að greiðslur til að kosta ríkisfjölmiðil er ekki ætlað til grófra afbrota eins og morðtilræða eða stulds á einkasímum. Það er engin blaðamennska að véla fólk til liðs við sig til að beita slíkum aðferðum til að komast yfir gögn í leit að æsingafrétt til að koma höggi á pólitískan andstæðing. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með vörnum viðkomandi blaðamanna sem réttlæta framda glæpi í nafni blaðamennskunnar. Slíkar aðferðir eiga að sjálfsögðu ekkert skylt við eðlilega blaðamennsku en sýna hversu langt ríkisfjölmiðill landsmanna er kominn frá verkefni laganna sem honum eru settar. Landsmenn vilja ekki borga fyrir laglausan slúðurmiðil.
Útungunarvél stjórnmálamanna
Í grunninum fjallar byrlunarmálið um hatur vókaðra aðallega samfylkingarblaðamanna Ríkisútvarpsins gegn arðbærri undirstöðugrein landsmanna og eigendum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hatrið er þvílíkt að byrgt hefur alla sýn á grundvelli blaðamennsku viðkomandi starfsmanna RÚV sem gerst hafa afbrotamenn í því skyni að uppfylla pólitískan rétttrúnað og misnota ríkisfjölmiðilinn til að breiða út eigin stefnu í stjórnmálum.
Samfylkingin hreiðraði um sig og náði fljótt völdum innan RÚV og bjó til í útungunarvél fyrir stjórnmálafólk. Ef andlitið var kynnt landsmönnum gegnum skjáinn, kom viðkomandi inn í kosningabaráttuna á allt öðrum forsendum en aðrir sem þurftu að kosta miklu fé til að kynna sig þjóðinni. RÚV hefur þannig orðið stökkpallur fyrir alls konar framagosa til að komast áfram í vel launaðar stöður á alþingi eða í forsetastól á Bessastöðum. Þóra Arnórsdóttir bauð sig fram til forseta Íslands 2012 gegn sitjandi forseta Ólafi Ragnar Grímssyni en skjáandlit hennar dugði samt ekki til eftir auknar vinsældir forsetans sem beitti sér í Icesavemálinu. Aftur á móti dugði skjáandlit Guðna Jóhannessonar sem fékk viðkomu og kynningu RÚV á tímabili áður en hann kynnti framboð sitt til forseta. Mörg önnur nöfn má nefna, hér eru einungis nokkur dæmi nefnd af handahófi: Eiður Guðnason þingmaður, Guðbjörg Rikey borgarstjórnarfulltrúi Reykjvíkinga, Ólafur Árnason þingmaður, Ágúst Ó. Ágústsson þingmaður, Sigríður I. Ingadóttir þingkona, Páll Jónsson þingmaður osfrv.
Valdatæki andstæðinga íslensku stjórnarskrárinnar
Þessi stjórnmálaspilling hefur ekki komið í einni svipan í stíl við valdarán heldur hefur þróast í áratugi og lagt grundvöllinn að þeirri siðleysismenningu að starfsmenn RÚV telja það sjálfsagðan hlut að gerast brotlegir við landslög. Slík afstaða einkennir valdhafa einræðis sem sitja tryggir á stóli sínum, því þeir hafa tækin í höndunum til að halda andstæðingum sínum fjarri. Því miður er þessi menning ekki einbundin við RÚV heldur gegnumsýrir menningu og vitund íslensku þjóðarinnar. RÚV er Pravda íslensku spillingarinnar sem hefur tekið þjóðarsálina í gíslingu með sífelldum heilaþvotti allan sólarhringinn ár út og ár inn. Þessi menning sem innleiddi vókmenninguna á Íslandi er valdatæki til að skapa, næra, viðhalda og þróa áfram þá spillingu sem sundrar Íslendingum og gerir þjóðina viðkvæma fyrir áformum andstæðingum hennar sem vilja komast yfir auðlindir landsins eins og fiskinn í landhelgi Íslands. Það er engin tilviljun að flest allir stjórnmálamenn aldir upp á RÚV styðja aðild Íslands að ESB og eru í slíkum flokkum. Frá þessu fólki hefur atlaga verið gerð og enn á að reyna að gera til að afnema rétt landsmanna til að ráða örlögum sínum sjálfir með breytingu á stjórnarskránni. Frumvarp um bókun 35 og uppvakning aðildarumsóknar ESB eru nýjustu dæmin.
Þakka ber Páli Vilhjálmssyni fyrir að standa trúfastur á grundvelli starfsgreinarinnar, Morgunblaðinu fyrir að taka málið á herðar sínar og Stefáni E. Stefánssyni fyrir aðkomu og umfjöllun. Án þessara aðila væri þjóðin í myrkri stödd.
Það er mikilvægt fyrir þjóðina að láta ekki áróður, ósannindi og sviksamleg markmið andstæðinga sinna sundra landsmönnum frá því að verja réttinn að ráða örlögum sínum sjálfir. Skjaldarmerkið okkar er varið af fjórum landvættum og þörf er á þeim öllum í þeirri baráttu sem fram undan er.