Spilling Sjálfstæðisflokksins hverfur ekki einfaldlega með kjöri nýs formanns

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er um þessa helgi og mikill spenningur aðallega varðandi formannskjör eftir að Bjarni Benediktsson tók réttilega þá ákvörðun að víkja til hliðar. Arfleifð hans mun hins vegar ekki hverfa með nýjum formanni flokksins. Sú uppgjafar- og ósjálfstæðismenning sem hreiðrað hefur um sig innan flokksins undir valdstjórn Bjarna Benediktssonar er dýpri en að það dugi að skipta um formann. 

Bjarni Benediktsson sýndi það í Icesave deilu þjóðarinnar að hann vildi ekki fara dómsstólsleiðina. Hann hefur aldrei viðurkennt það, hvorki fyrir sjálfum sér eða öðrum að hann lenti vitlausu megin við þjóðina sem hafnaði samningstillögu sem hann sagði bestu lausnina fyrir Ísland. Þjóðin fylgdi í staðinn stefnu fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, Davíðs Oddssonar, sem gekk út á það að landsmenn ættu ekki að borga skuldir óreiðumanna. Sú leið reyndist farsæl fyrir þjóðina sem engu að síður þurfti að greiða hátt verð fyrir fjármálarán útrásarvíkinganna í bankahruninu. Sú spillingarmenning sem útrásarvíkingarnir sáðu og gegnsýrði íslenska samfélagið er enn við lýði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gert upp við þá spillingu en viðhaldið henni með undirlægjuhætti við Evrópusambandið eins og frumvarpið um bókun 35 sýnir. Þau svik nýtast núverandi ESB-stjórn Íslendinga til að ná fram því markmiði að þvinga Ísland í hlekki sambandsins.

Sjálfstæðismenn hafa ekki gert upp við undirlægjuhátt flokksins gagnvart jafnaðarmönnum, sósíaldemókrötum og vinstri mönnum Íslands. Á meðan Davíð Oddsson var foringi flokksins, þá hélt hann stjórnmálaandstæðingum flokksins í skák vegna meðfæddra leiðtogahæfileika sinna. Á skemmtilegan og húmorsríkan hátt greindi hann kjarnann frá hisminu fyrir sjálfstæðismál Íslands, ætíð trúr stjórnarskrá lýðveldisins og starfi í þágu þjóðarinnar. Hann var kjörinn í snarpri baráttu við ESB-sinnann Þorstein Pálsson sem klauf flokkinn í fýlu við að tapa formannskjörinu. Allt of margir framagosar eru í íslenskum stjórnmálum fá borgað fyrir að gera ekki neitt eins og trúðurinn Jón Gnarr er dæmi um. Sjálfstæðismenn verða að fara að gera sér grein fyrir því, að stjórnmálaskalinn hefur færst til vinstri og hluti flokksins með. 

Flokkurinn verður að endurnýja flokksforystuna með einstaklingum sem ekki eru smitaðir af vinstri veirunni. Slíkt smit lýsir sér í hræðslu við að framfylgja réttmætum, löglegum ákvörðunum ef þær stangast á við hagsmuni ESB og sósíalíska Internationalen. Finna þarf einstaklinga með hæfileika til að leiða flokkinn í stíl Ólafs Thors og Davíðs Oddssonar. 

Það er einkenni íslenskra stjórnmála eftir hrun að stjórnmálamenn bera enga ábyrgð á gjörðum sínum. Litið er á embætti sem hnoss til að auka pyngjuna og monta sig með á mannamótum sérstaklega fyrir fulltrúa erlends valds. Litið er á heiðarleg embættisstörf fyrir þjóðina sem söluvöru til að komast í feitar stöður hjá alþjóðastofnunum. Stjórnmálin á Íslandi þjást af stefnuleysi og almennri hnignun og hafa aldrei komist á skrið eftir fjármálahrunið 2008.

Má fullyrða að stjórnarkerfi landsmanna sé í gíslingu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sögulegu hlutverki að gegna að uppræta þessa spillingu, skera niður báknið og gæta aðhalds fyrir hag þjóðarinnar. Byrja verður í eigin húsi en því miður hefur ekki mikið komið fram sem bendir til þess að sú leið verði farin. Einkenni allra kosninga á Íslandi er að umræðan er grunn og gerð í hálfkáki vegna takmarkaðs tíma og leið sýndarmennsku valin á kostnað innihaldsins. Ráðandi stefna í stjórnmálum er að líta á fé skattgreiðenda sem einkasjóð kjörinna embættismanna. Það er stefna sósíalismans í hrópandi andstöðu við sjálfstæðisstefnuna.

Hér er verk að vinna.

Fara efst á síðu