Sögulegar kosningar – Valkostur fyrir Þýskaland næst stærsti flokkurinn

Frá vinstri: Olaf Scholz leiðtogi sósíaldemókrata, Friedrich Merz leiðtogi Kristdemókrata og Alice Weidel leiðtogi Valkosts fyrir Þýskaland.

Valkostur fyrir Þýskaland, AfD, fær um 20% atkvæða í þýsku sambandskosningunum samkvæmt útgönguspám. Flokkurinn tvöfaldar fylgi sitt frá síðustu kosningum og verður næststærsti flokkurinn í Þýskalandi. Alice Weidel flokksleiðtogi lýsir kosningunum sem sögulegum og fagnar miklum sigri.

Kristdemókratar bæta við sig 5-6% og eru stærsti flokkurinn með um 30% fylgi. Sósíaldemókratar tapa verulegu fylgi 10% og fara niður í um 16% fylgi og eru þriðju stærsti flokkurinn. Útkoma kratanna er sú versta í 135 ár að sögn ýmissa fjölmiðla. Vinstri flokkurinn bætir við sig og fer í 9% fylgi. Spurning er hvort BSW kemst inn á þing en flokkurinn er við 5% mörkin og kemur í ljós, þegar endanleg talning atkvæða hefur átt sér stað. Það sama gildir fyrir flokkinn FDP sem tapaði 6% og vegur salt á 5% mörkunum. Það þarf 5% atkvæða til að komast inn á þing.

Valkostur fyrir Þýskaland tvöfaldar fylgið

Alice Weidel, leiðtogi Valkosts fyrir Þýskaland, kynnti kosningaúrslitin fyrir framan spennta áhorfendur:

„Við höfum náð sögulegum árangri. Við höfum fest okkur í sessi í hinu pólitíska landslagi.“

Tino Chrupalla, annar leiðtogi Valkosts fyrir Þýskaland sagði um kosningabaráttuna og niðurstöðuna:

„Við stóðum sameinuð, herferð okkar var markviss og við vorum öguð.

Friedrich Merz formaður Kristdemókrata, CDU, stærsta flokksins sagði:

„Aðalatriðið núna er að skapa stöðuga ríkisstjórn eins fljótt og auðið er. Heimurinn þarna úti bíður ekki eftir okkur – við þurfum að bregðast hratt við.“

Merz sagði að hann myndi ekki mynda stjórn með Valkosti fyrir Þýskaland. Búist er við að hann reyni að mynda nýja ríkisstjórn með krataflokknum. Óvissa er með BSW, því ef þeir ná 5% markinu og verða þingtækur flokkur munu tölur breytast og þá óvíst hvort að Merz geti myndað tveggja flokka stjórn með krötum.

Það gekk ekki vel hjá Olaf Scholz og krataflokki hans sem féll níu prósentustig og fór niður í 16% prósent. Þýskir fjölmiðlar greina frá því að þetta sé versta útkoma flokksins í 135 ár.

Fara efst á síðu