Arnar Þór Jónsson, lögmaður er þjóðkunnur maður, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og stofnandi Lýðræðisflokksins er gestur Gústafs Skúlasonar ritstjóra Þjóðólfs. Rætt er um Bókun 35 sem ríkisstjórnin reynir að böðlast með gegnum þingið en margir lögfróðir menn segja bókunina ganga gegn stjórnarskrá Íslands.
Nýlega var haldinn fundur í fullu húsi í Iðnó um Bókun 35 en engir af hefðbundnu fjölmiðlunum höfðu áhuga að fylgjast með eða segja frá umræðunni. Í staðinn eyddi RÚV tíma í að mynda og búa til mikla frétt um nokkra einstaklinga með Palestínufána í miðbænum. Greinilega samantekin ráð að þagga niður þjóðfélagsumræðuna.
Arnar Þór sagði fundinn hafa verið málefnalegan og góðan og góðar umræður á eftir. Guðni Ágústsson fv. ráðherra og alþingismaður var fundarstjóri og um tíma leysti Geir Waage hann af hólmi. Arnar Þór segir Alþingi Íslendinga vera orðið að afgreiðslustofnun ESB fyrir þúsundir reglna sem innihalda skyldur og ábyrgð fyrir landsmenn án þess að þingmenn nenni að kynna sér innihaldið enda síðufjöldi breytinga og innleiðinga tugir þúsunda blaðsíðna.

Arnar Þór segir að „eiginlega ætti að kalla EES samninginn Samninginn um Evrópusvæðið, því ESB er sífellt af færa sig upp á skaftið með efni, umfang og valdaflutning til Brussel:
„Um er að ræða bremsulaust innleiðingaferli á bindandi reglum fyrir Ísland sem ríki sem kalla yfir okkur skaðabótaskyldu ef þær eru brotnar. Valdið er alltaf að færast inn á einhverja skrifstofu í fjarskalandi.“
Arnar Þór ræddi efnahags- og stjórnmálavanda Evrópuríkja eins og Frakklands og Þýskalands en stjórnarkreppa ríkir í Frakklandi ofan á efnahagskreppu og í Þýskalandi ræðir kanslarinn um að hækka ellilífeyrisaldur í áföngum upp í 73 ára aldur.
„Það er afar slæmt ef þeir sem eru innfluttir til ESB-ríkjanna með þeim orðum að þeir eiga að tryggja velferðarkerfið verða síðan þess sjálfir valdandi að vera baggi á kerfinu sem rís þá ekki undir velferðinni lengur.“
Allt reglugerðarfargan frá Brussel íþyngir samkeppnishæfni fyrirtækja og álfan dregst aftur úr öðrum hlutum heims í framleiðni og velmegun.
Þegar fólk hættir að kjósa pólitíkusa heima fyrir, þá geta þeir eygt von að fá umbun alþjóðakerfisins eins og Katrín Jakobsdóttir, fv. forsætisráðherra, sem núna er með eigin deild hjá WHO. Sjá má það sem þakkir WHO til Katrínar fyrir greiðann að afnema lýðræðið á meðan Covid stóð og var allt stjórnarkerfið í höndum þriggja persóna á tímabilinu. Arnar segir samantekt reynslu landsmanna af þessum tíma ekki liggja fyrir og engin veit, hvort hún verði nokkru sinni gerð. Hann er mjög gagnrýninn á til dæmis að verið sé að sprauta ung börn með efni sem ekki hefur verið fullreynt en margir eru ver á sig komnir eftir sprautuna en án.
Hégómagirnd stjórnmálamanna og metnaðargirnd fyrir persónulegum frama hefur gert að stjórnmálamenn á Íslandi eru fjarri því að vinna fyrir kjósendur og valdið færist sífellt lengra út í fjarskann frá þeim sem eiga það. Arnar nefnir sem dæmi tillögu Eyjólfs Ármannssonar innviðarráðherra um neðri mörk á stærðum sveitarfélaga þar sem vikið verður af braut íbúalýðræðis með þvingandi lögum alþingis. Samtímis hefur getu kerfisins til að kenna börnum að lesa hrakað, erfitt er fyrir aldraða að fá pláss í íbúðum fyrir aldraða og sjúkrahúsin eru yfirfull og heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum. Engu er líkar en Ísland sigli sígandi að feigðarósi nýs allsherjarhruns ef ekki kemur eitthvað nýtt til sem breytir vegferðinni.
Margt fleira bar á góma. Smelltu á spilarann hér að neðan til að sjá þáttinn: