„Skítakamrar Alþingis“

Alþingismaðurinn Jón Gnarr klæðist gjarnan pilsi við hátíðleg tækifæri og því ekki úr vegi að hann framlengdi hina mikilvægu baráttu buxanna yfir í feykilegt réttlætismál pilsanna.

Sá ágætismaður Jón Magnússon sem Þjóðólfur hefur átt samtöl við er eins og alþjóð veit, öflugur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni. Hann gerir í nýju bloggi á blog.is að umtalsefni sjónhverfingu gnarrista Alþingis sem notar ræðutímann til að vekja athygli á sínum eigin gallabuxum. Fyrirsögnin er vel við hæfi: „Baráttan um buxurnar.“

Jón Magnússon skrifar:

„Jón Gnarr þingmaður Viðreisnar lét til sín taka á löggjafarþingi þjóðarinnar í gær. Í fyrsta lagi náði hann að stela athyglinni með því að gera mikið veður út af því að hann hefði klæðst í gallabuxur. Fréttastofu RÚV fannst það aðalatriðið í fréttaflutningi frá Alþingi í gær. Þó var sérstök umræða um strandveiðar.

Jón Gnarr var að vandræðast með það, hvort hann væri klæddur að heldri manna sið og í samræmi við það sem eðlilegt er á Alþingi, þegar hann skrýddist gallabuxunum. Í sjálfu sér átti þessi sjálfhverfa sýniþörf Jóns Gnarr lítið erindi við almenning.

Þessi umræða er ekki ný, en RÚV finnst hún alltaf jafn merkileg. Einfaldleiki málsins varðandi klæðaburð alþingismanna er að það er ekki skylda að vera í einkennisbúningi heldur snyrtilega klæddur. Sumir róttækir þingmenn, sem hafa lítið til málanna að leggja annað en vekja á sér athygli, hafa iðulega mætt eins og skítakamrar til fara og talið það innlegg í þjóðmálabaráttuna. Með því eru þeir að gera lítið úr sjálfum sér og draga úr virðingu Alþingis.

En Jón Gnarr náði að auglýsa gallabuxurnar sínar vel og öllu minni athygli vakti samt ræða hans um strandveiðar, þar sem hann minntist á það í upphafi umræðnanna að hann hefði raunar ekkert vit á strandveiðum og vissi meira um landbúnaðarmál. Að sjálfsögðu var því við hæfi að þingmaðurinn blandaði sér í umræðuna sem hann segist ekkert vit hafa á. En óháð þessu sjálfsmati Jóns Gnarr, þá var ræða hans um strandveiðar mun betri en hugsvölun sýniþarfar hans á gallabuxunum sínum.“

Fara efst á síðu