
Íris El skrifar:
Leiðtogar Evrópuþjóða eru stórmóðgaðir út í J.D. Vance, varaforseta Bandaríkjanna. Í staðinn fyrir að haga sér eins og venjulegir diplómatar gera á ráðstefnum eins og Munich – skiptast á kurteislegum skoðunum, éta og drekka á kostnað skattgreiðenda og koma litlu sem engu í verk – sagði varaforsetinn ungi ráðstefnugestum til syndanna. Synda sem þeir vildu hvorki heyra um né játa upp á sig.
Sextíu árum eftir „Ich bin ein Berliner“ ræðu John F. Kennedy, þáverandi Bandaríkjaforseta, sem lýsti yfir ótvíræðum stuðningi Bandaríkjanna við Vestur Evrópu og baráttuna fyrir málfrelsi og réttindum þeirra sem voru á bak við járntjaldið, sagði Vance við leiðtoga Evrópu að álfunni stæði meiri hætta af sér sjálfri en af Rússlandi eða Kína. „Ég hef mestar áhyggjur af ógninni innanfrá… [af] afturhvarfi Evrópu frá grundvallargildum hennar, sem hún deilir með Bandaríkjunum.“
Í stuttu máli sagt: Þið getið ekki þóst verja lýðræði þegar þið eruð að gjöreyða réttindunum sem skilgreina hver við erum. Árásir ykkar á tjáningarfrelsi þegna ykkar eru ólíðandi.
Vance nefndi skammarleg dæmi um ofsóknir ríkisstjórna Bretlands, Svíþjóðar og Skotlands gagnvart borgurum sem voru ákærðir, sumir sektaðir og fangelsaðir fyrir orðræðu- og hugsanaglæpi og aðgerðum Evrópusambandsins gegn málfrelsi. Hann gagnrýndi Thierry Breton, einn af verstu óvinum tjáningarfrelsis í Evrópu, sem leiddi áform sambandins til að stjórna orðræðu með hinum alræmdu, hatrömmu reglugerðum um stafræna þjónustu.
Vance hafði að háði forsendurnar fyrir hömlum á tjáningarfrelsi til að berjast gegn ‘rangupplýsingum’ og ‘hatursorðræðu’ og sagði þessar ráðstafanir vera mun meiri ógn við borgara á Vesturlöndum en nokkur ytri hætta. Hann hafði hugrekki til að segja það sem lengi hefur ekki mátt varðandi bann við orðræðu í þeim tilgangi að berjast gegn erlendum áhrifum: „ef hægt er að gjöreyða lýðræði ykkar með nokkurra hundruð þúsund dollara virði af erlendum stafrænum auglýsingum, þá var lýðræðið ekki sterkt til að byrja með…“
Vance gagnrýndi hræsni evrópskra þjóða sem biðja um æ meiri hernaðaraðstoð „í nafni sameiginlegra lýðræðislegra gilda okkar á sama tíma og þær troða fótum tjáningarfrelsi, réttinn sem eitt sinn skilgreindi vestræna siðmenningu.“
„Áður en við skuldbindum okkur frekar til varnarmála Evrópu,“ sagði Vance við stórmóðgaða áhorfendur sína, „ættum við að vera sammála um hvað við erum að verja. Það er að verða lítill munur á milli þessara evrópsku þjóða [sem refsa fyrir orðræðu] og andstæðinga okkar.“
Hann sagði það stundum ekki vera ljóst hvaða jákvæðu framtíðarsýn leiðtogar Evrópu væru að verja. Það „er ekkert öryggi ef þið eruð hrædd við raddir og skoðanir ykkar eigin kjósenda… Ef þið eruð að flýja af ótta við ykkar eigin kjósendur, þá er ekkert sem Ameríka getur gert fyrir ykkur. Né heldur… getið þið gert nokkuð fyrir bandarísku þjóðina, sem kaus mig og kaus Trump forseta.“

Viðbrögð evrópsku diplómatanna voru forundran. Fáir höfðu mannasiði til að gefa kurteislegt lófatak. Í staðinn störðu þessir hortugu, sjálfumglöðu montrassar á unga varaforsetann með hrokafullri fyrirlitningu. Á tuttugu mínútum hafði J.D. Vance flett ofan af berstrípaðri hræsni bandamanna, sem ætlast til að Bandaríkin verji Vesturlönd á meðan leiðtogar Evrópu með einræðisherradrauma vaða á skítugum skónum yfir vestræn gildi.
Evrópsku diplómatarnir og fjölmiðlarisarnir beggja vegna Atlantsála – hinir síðarnefndu bæði dyggar klappstýrur ritskoðunaraðgerða og afkastamiklir framleiðendur rangupplýsinga – kölluðu Vance „niðurrifsbolta“ fyrir að gagnrýna andstæðinga málfrelsis, sem hafa yfirtekið Evrópu. „Þetta er allt svo klikkað og áhyggjuefni,“ sagði þýskur embættismaður, diplómat þjóðar sem hefur handtekið fólk vegna símahringitóna.
Demókratar og talsmenn þeirra í bandarískum fjölmiðlum voru sammála. „Hvað í fj… var þetta? Þetta var hrikalegt.“ Nei, þetta var alveg frábært.
Þeim þótti ekki fréttnæmt, eftir að Elon Musk keypti Twitter og lagði niður ritskoðunarkerfi þess, að Hillary Clinton, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti Evrópusambandið til að ritskoða notendur Twitter innan Bandaríkjanna sem utan, en að J.D. Vance skuli standa vörð um tjáningarfrelsi, mikilvægasta gildi bandarísku þjóðarinnar og hornstein lýðræðis í heiminum, telja þeir „sláandi móðgun.“
Markmið leiðtoga Evrópu er ritskoðun og algjör upplýsingastjórnun í anda Sovétríkjanna. Tjáningarfrelsi þjóða þeirra heyrir sögunni til og þeim stendur hjartanlega á sama. Þeir líta á J.D. Vance sem sveitalubba, bandarískan kotung sem ekki skilur alþjóðleg gildi.
Í ræðu sinni sendi J.D. Vance Evrópubúum mikilvægustu skilaboð sem Bandaríkin hafa sent bandamönnum síðan loka síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann mælti af einlægni og einurð í klassískri, amerískri rödd – skýr, heiðarleg og óhrædd, án sýndaryrða eða tilgerðar. Hann sagði heiminum hreint og beint hvað það þýðir að vera Bandaríkjamaður og hvaða gildi skilgreina ennþá bandarísku þjóðina, en ekki bandamenn hennar. Ekki lengur.
Höfundur er fjölmiðlafræðingur