
Jóhannes Loftsson verkfræðingur hefur skrifað grein um takmörkun sjúkraflutninga og aukið hættuálag á sjúkraflug vegna lokun næstsíðustu flugbrautar Reykjavíkurflugvallar. Segir hann nothæfisstuðulinn nú hruninn í 70% en á að vera a.m.k. 95%. „Þetta þýðir að þriðja hvert sjúkraflug verður við hættulegri skilyrði. Þetta er 6 falt yfir leyfileg mörk!“
Jóhannes skrifar:
„Þriðja hvert sjúkraflug þarf nú að meta hvort þorandi sé að senda sjúklinginn suður. Ef það er flogið þarf flugmaðurinn að meta áhættuna, hvort þorandi sé að lenda, hvort hægt sé að lenda í Keflavík eða hvort það þurfi að snúa við. Afleiðingin er verulega skert heilbrigðisþjónusta landsbyggðarinnar.“
Sjö bráðasjúklingar munu ekki komast suður næstu þrjá mánuði
Áður en neyðarbrautinni var lokað og þrjár flugbrautir voru á Reykjavíkurflugvelli komust allir bráðasjúklingar suður. Veruleg breyting varð við að flugbrautirnar urðu tvær og má ætla m.v. reynslu flugmanns að um 10 bráðasjúklingar komist ekki suður á hverju ári. Eftir fækkun flugbrautanna var nothæfisstuðullin fyrir sjúkraflug fallinn í 88,5% miðað við 10 hnúta hliðarvind. (Þessi nothæfisstuðull fyrir sjúkraflug var þó aldrei reiknaður fyrir lokun neyðarbrautarinnar sem var brot á reglugerð )

Það er hægt að bjarga Reykjavíkurflugvelli
Jóhannes skrifar í greinarlok:
„Ljóst er að forsenda samkomulags ríkis og borgar um Reykjavíkurflugvöll er löngu brostið, því rekstaröryggi flugvallarins hefur aldrei verið til staðar síðan neyðarbrautinni var lokað. Ekkert nýtt flugvallarstæði er á næstu grösum þannig að það þarf að bregðast við aðkallandi vanda strax. Ef ekki er hægt að fella þessi tré í næstu viku, þyrftu yfirvöld að fara í neyðaraðgerðir (t.d. neyðarlög) til að brautin opni strax.“
„Í framhaldinu þarf svo að eiga sér stað heiðarleg rýni á stöðu máli. Fara þarf í ýtarlega könnun á stöðu heilbrigðismála og hve oft sjúklingi sem þyrfti að fara suður er snúið við og leggja þyrfti mat á þeim skaða sem þetta veldur. Eins þarf að fara fram raunveruleg “ópólitísk” mat á nothæfisstuðli Reykjavíkjurflugvallar þar sem allir útreikningar verða birtir og uppi á borðinu. Yfirvöld þurfa að fara að horfast í augun á því skemmdarverki sem þegar hefur verið unnið á flugvellinum. Aðeins þegar menn eru farnir að horfast í augun við sannleikann er hægt að bregðast við. Það er hægt að bregðast við og það er hægt að bjarga reykjavíkurflugvelli. En það mun aldrei gerast hjá þeim sem vilja lifa áfram í þeirri blekkingu sem nú er í gangi.“
Jóhannes Loftsson hefur lagt til hugmynd um hvernig hægt er að bjarga Reykjavíkurflugvelli samanber grein í DV þann 12. maí 2022 sem lesa má hér.