Sífellt algengara að kvikni í vindorkuverum

Eldur kom upp í vindmyllu í Sotenäs nálægt Gautaborg á þriðjudaginn. Eldurinn breiddist óhindrað út og brennandi hlutar losnuðu og köstuðust í loftinu og niður á jörð. Ekki var talið mögulegt að slökkva eldinn, heldur var svæðinu lokað af í kringum vindmylluna, þar til eldurinn hafði brunnið út.

Þetta er nýjasta dæmið í röð bilana vindmylla sem getur kviknað í og farið á yfirsnúning þegar legur ofhitna, skammhlaup myndast í rafölum m.fl. sem veldur íkveikju og/eða að skrúfblöð slitna af og þeytast langar leiðir. Eru þessar bilanir stórhættulegar mannfólki og umhverfisslys geta orðið t.d. þegar glussi lekur í jörð.

Samkvæmt Björn van der Kaay, slökkviliðsstjóra Gautaborgar, þá var ekki reynt að slökkva eldinn heldur var slökkviliðið einungis á staðnum til að halda forvitnum burtu í öruggri fjarlægð. Þar sem myllan var staðsett tiltölulega afskekkt taldi hann litla hættu á, að almenningur gæti orðið fyrir brennandi hlutum frá vindmyllunni sem þeyttist burtu.

Van der Kaay sagði við TV4 að rafall vindmyllunnar hafi byrjað að loga og slökkviliðið geti ekkert gert á meðan skrúfublöðin sem einnig loguðu héldu áfram að snúast.

Búnaður slökkviliðsins nær ekki upp

Hæð vindmyllunnar gerir slökkvistörf óframkvæmanleg og slökkviliðsmenn vakta á staðnum þar til eldurinn hættir. Þrátt fyrir umfangsmikla uppbyggingu vindorku þá eru engin tæki til sem hægt er að nota til að slökkva elda í vindmyllum. Slökkviliðsstjórinn heldur áfram:

„Þetta er mjög hátt. Við þurfum að loka af svæðinu í kring og vera í hæfilegri fjarlægð.“

Orsök þessa tiltekna eldsvoða er ekki ljós en sjálfsíkveikjur vindmylla verða sífellt algengari. Það sýnir reynslan frá Danmörku, þar sem uppbygging vindorku hefur verið enn ágengari en í Svíþjóð. Það eru aðallega eldri myllur sem bila á þennan hátt töluvert fyrir áætlaðan líftíma þeirra.

Aðfaranótt 20. janúar 2024 braust út mikill eldur í 45 metra hárri vindmyllu í Lemvig á Jótlandi. Þar gátu slökkviliðsmenn heldur ekki gert neitt annað en að loka svæðinu og horfa á meðan eldtungurnar breiddust frá vélabúnaði myllunnar og út í skrúfublöðin sem slitnuðu af og þeyttust út í loftið.

Eldurinn var sá síðasti í röð um 30 slíkra atvika á rúmlega tíu árum. Rannsóknir sýna að eldar eru farnir að vera sífellt stærri hluti af bilunum í vindmyllum í Danmörku. Algengasta orsökin eru rafmagnsljósbogar sem geta myndast t.d. við skammhlaup og náð allt að 20.000 °C hita.

Vindorkuver nálægt byggð hættuleg

Vindorkuver koma sífellt nær byggðum. Eldar og aðrar tegundir bilana í myllunum, sem leiða til þess að hlutar af þeim kastast út loftið eins og skotfæri, þýða að hættan á að fólk slasist hefur aukist. Bætist það ofan á önnur óþægindi sem íbúar upplifa af því að hafa vindmyllur nálægt sér.

Mörg vindorkuver eru staðsett úti á sjó. Þegar bilun á sér stað veldur það truflunum á skipaumferð. Þegar 120 metra há vindmylla bilaði undan Anholt í Kattegat vegna of mikils roks, þá gat ekkert skip farið þar um. Í það skiptið kastaðist um 100 tonn af efni stjórnlaust út í loftið. Sama sagan þar, slökkviliðið getur ekkert gert.

Banaslys hafa átt sér stað við uppsetningu

Samkvæmt danskri kortlagningu koma dauðsföll einnig fyrir. Slík tilvik tengjast þó oftar uppsetningu myllanna en bilunum. Meðal annars hafa starfsmenn látist undir fallandi spöðum á meðan á byggingarvinnu stóð.

Fara efst á síðu