Síðasta vígi sænskra mjólkurbænda – og íslenskra

Alþjóðlegir fyrirtækjarisar og fjármálahrægammar láta greipar sópa í öllum atvinnugreinum. Sérstaklega hefur verið ráðist á bændur út um allan hinn vestræna heim. Bændur hafa snúist til varnar þegar eigið ríkisvaldið hefur gefið eftir fyrir glóbalismanum og orðið að vopni í höndum illmenna sem reka bændur í marga ættliði frá jörðum sínum. Það hefur leitt til mótmæla og uppreisnar bænda gegn alræðinu og fleiri tonnum af mykju verið kastað á anddyri grænu alræðisnöðrunnar innan hallardyra Evrópusambandsins í Brussel.

Sænskir mjólkurbændur standa sem betur fer enn fyrir þeirri hefð að vernda búskapinn og dýrin. Þeir dirfast að spyrna við fótunum og á svæðinu Roslagen norðvestur af Stokkhólmi ganga bændafjölskyldur saman við staðbundna framleiðslu landbúnaðarafurða og sölu þeirra til nærmarkaðarins. Baráttan snýst um líf og dauða bændastéttarinnar og landbúnaðinn eins og við þekkjum hann.

Roslagsmjólk er fyrirtæki fjögurra sænskra bændafjölskyldna sem reka mjólkurbú sín í Roslagen. Fjölskyldurnar neita að falla í opna gröf alþjóðahyggjunnar. Skilaboðin eru á mjólkurfernunni:

Standið með staðbundnum bændum!

„Kýr okkar ganga frjálsar um blómstrandi tún í opnu landslagi og halda sveitinni lifandi. Stöðva verður áratuga þróun með færri býlum og kúm. Við getum ekki lengur staðið undir eigin framleiðslu mjólkurafurða sem gerir okkur háð og viðkvæm gagnvart erlendum afurðum. Hver einasti mjólkurlítri sem þú kaupir af Róslagsmjólk hjálpar bændum í Róslagen að lifa áfram ásamt kúnum sem fjölgar á svæðinu.“


Skuggaleg þróun

Ekki þarf annað en að líta á graf um fækkun mjólkurbænda og kúa frá 1982 til að skilja þá dauðakrumlu glóbalismans sem tekið hefur landbúnaðinn heljartaki. Á 40 árum hefur mjólkurframleiðandi bændabýlum í Svíþjóð fækkað frá rúmlega 40 þúsund niður í tæplega þrjú þúsund. Það þýðir að tæp 70% bændastéttarinnar hefur horfið á tímabilinu. Þar sem áður voru líflegar sveitir sem iðuðu af lífi, störfum og framtíðartrú ríkir nú atvinnuleysi og eymd og landbúnaðurinn að murrkast út. Atvinnutækifærin hafa verið eyðilögð og unga fólkinu smalað inn í þéttbýlið til að tryggja endanlegt náðarhögg á bændastéttina og landbúnaðinn.

Á sama tímabili hefur mjólkurkúm sænskra bænda fækkað úr 665 þúsund niður í 297 þúsund eða tæp 45%. Eftir slíka slátrun þarf enginn að vera hissa á því, að matarsjálfbærni Svía er bara 50%. Annar hver matarbiti sem Svíar láta í munninn kemur frá erlendum aðilum. Ef kemur til stríðs eins og herforingjar og ráðherrar Svíþjóðar hamra á hverjum degi inn í Svía að geti skollið á áður en dagurinn er á enda, þá sjá menn hvílíka hungurgildru sænsk stjórnvöld hafa útbúið fyrir landsmenn sína. Ef flutningaleiðir laskast eða stöðvast á matvælum til Svíþjóðar, þá mun helmingur Svía stara á tóman matardiskinn og svelta!

Græni losunaráróðurinn tæki glóbalismans til að útrýma bændastéttinni

Á Íslandi sem og í Svíþjóð sitja pótintátar „alþjóðlegra skuldbindinga“ og ydda blýantana á skrifstofum sínum til að finna leiðir til að útrýma bændastéttinni. Bændablaðið skrifar réttilega„ýtt sé undir hegðun sem hvetur til losunarsamdráttar.“ Grænu kerfiskrabbarnir hafa reiknað út að landbúnaðurinn tilheyri „samfélagslosun“ og Ísland hafi sem markmið að minnka „losun“ um 40% fyrir árið 2030. Hvernig „markmið“ Sameinuðu þjóðanna eru orðin æðri íslenskri stjórnarskrá er verðugt rannsóknarverkefni út af fyrir sig. Möppudýr kerfisins sjá engan mun lengur á eigin landsmönnum eða alþjóðastofnunum og sjálfu Alþingi hefur verið breytt í afgreiðslustofnun fyrir „markmið alþjóðlegra stofnana.“ Þetta er alræðisþróun og bændur eru hér síðast vígi landsmanna til að spyrna við fótum.

Sem dæmi um alþjóðastjórn á íslensum búrókrötum má nefna uppfærða „aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.“ Er þetta skrípi ágætis dæmi um þann fáránleika og orðflækjuhátt sem kerfisfólkið dundar sér við alla daga á kostnað skattgreiðenda. Bændur þurfa greinilega ásamt öðrum góðum landsmönnum að skera upp herör gegn djúpríkinu í 101 Reykjavík og moka þeirri sjálfskipuðu akademíu sem er á glóbalistasterum út úr kerfinu. Verði sá flór ekki hreinsaður fer hann með lýðveldið okkar í gröfina.

Fara efst á síðu