Samdráttur í efnahag Þýskalands tvö ár í röð

Efnahagur Þýskalands heldur áfram að falla og atvinnumælirinn Ifo hefur fallið niður í lægsta gildi í fjögur ár, það sama og lægst var í Covid-faraldrinum árið 2020. Á sama tíma fjölgar gjaldþrotum með tveggja stafa tölu.

Efnahagskreppan í Þýskalandi er afleiðing af fækkun pantana, háum launa- og orkukostnaði og reglugerðarfargani sem hefur leitt til þess að fyrirtæki fækka starfsfólki og seinka ráðningum. Atvinnumælingar fóru niður í 92,4 í Munchen í desember eftir að hafa náð 93,3 í nóvember. Gögnum er safnað úr könnun meðal stjórnenda um allt Þýskaland.

Klaus Wohlrabe, sem stýrir Ifo könnunum segir:

„Sífellt færri fyrirtæki bæta við starfsfólki. Hlutfall fyrirtækja sem vilja fækka störfum eykst stöðugt. Næstum allar atvinnugreinar íhuga fækkun starfa.“

Einkum hefur bílaiðnaðurinn ásamt birgjum orðið verst úti. Það á ekki aðeins við um framleiðsluna, heldur ætla söluaðilar einnig að fækka starfsfólki. Wohlrabe segir:

„Á meðan ferðaþjónustan eykur mannaráðningar, þá fækka þjónustuaðilar og gistiiðnaðurinn störfum.“

Hagstofa Þýskalands tilkynnti að gjaldþrotum haldi áfram að fjölga. Fjöldinn jókst um 12,6% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. Gögnin sýna að vöxtur gjaldþrota milli ára er í tveggja stafa tölum síðan í júní 2023 með einni undantekningu í einum mánuði með einna stafa tölu.

Helstu hagfræðingar og jafnvel ríkisstjórnin viðurkenna að efnahagssamdráttur verði í Þýskalandi annað árið í röð. Í nýjustu mánaðarskýrslu fjármálaráðuneytisins segir:

„Sjálfbær efnahagslegur viðsnúningur er enn ekki fyrirsjáanlegur.“

Auk efnahagslegrar óvissu í venjulegum starfsgreinum, þá vofir yfir tollaógn frá Bandaríkjunum. Donald Trump, nýkjörinn forseti, ræðir um að setja allt að 25% tolla á Evrópu og Kína sem yrði harður skellur fyrir Þýskaland ofan á ríkjandi efnahagskreppu.

Fara efst á síðu