Sænskur prestur vill banna feðrum að leiða brúðina að altarinu

Sara Waldenfors vill banna með lögum að feður fylgi dótturinni til brúðgumans í kirkjunni (Myndir Facebook / Tony Alter).

Að faðir brúðarinnar leiði hana að altarinu þar sem brúðguminn bíður er hefð innan kristinnar kirkju. Er það valkostur við að brúðhjónin gangi saman kirkjuganginn að altarinu. Núna vill sænskur sósíaldemókratískur kvenprestur banna siðinn í Svíþjóð. Hugmyndin með banninu vekur litla gleði.

Sænski kvenpresturinn Sara Waldenfors er baráttuglaður sósíaldemókrati innan sænsku kirkjunni. Hún hefur lagt fram tillögu til kirkjuþingsins að banna eigi feðrum að fylgja dætrum sínum til altaris við kirkjubrúðkaup. Að sögn Waldenfors er það álíka afstaða og leyfa nauðungarhjónabönd og þvingaðan meydóm eins og gerist í vanþróaðri hluta heims. Í Svíþjóð stjórna flokkarnir kirkjunni og hverjir eru kosnir á kirkjuþingið sem fer með málefni kirkjunnar.

Konungur fylgdi krónprinsessunni

Allir lesa samt ekki þessa kvenfyrirlitningu og heiðursmenningarkúgun kvenna út úr því, að faðirinn leiði dóttur sína til brúðgumans við altarið. Frægt dæmi í Svíþjóð er þegar Karl XVI Gústaf konungur leiddi dóttur sína, Viktoríu krónprinsessu, að altarinu til Daníels við brúðkaupsathöfnina í Storkyrkan í Stokkhólmi árið 2010.

Margir venjulegir Svíar sem gift sig eða eru að fara að gifta sig í kirkjunni bregðast einnig neikvætt við banntillögu krata-prestsins. Eru þeir ósammála fullyrðingunni um, að feður sem fylgja dætrum til altaris í Svíþjóð geri alþjóðastarfi sænsku kirkjunnar erfiðara um vik. Sænska kirkjan vinnur gegn nauðungar- og barnahjónaböndum og annarri kúgun gegn konum og stúlkum í þriðja heiminum.

Konur vilja halda í hefðina

Dagblaðið Dagen vakti athygli á banntillögu Waldenfors og spurði konur sem giftust með þessum hætti um hvað þeim fannst. Þeim þótti það sjálfsagður hlutur að faðirinn leiddi dótturina til brúðgumans. Engum fannst það vera niðurlægjandi afstaða eða sambærilegt við nauðungar- og barnahjónabönd. Elise Ralston Samuelson á rætur að rekja til Bretlands, þar sem siðurinn er útbreiddari en í Svíþjóð. Hún segir:

„Það er skrítið að ætla að banna það. Mér finnst að viðkomandi eigi að geta ákveðið það sjálf. Þetta var mikilvægt fyrir okkur.”

Lítill stuðningur við bannið meðal presta

Dagblaðið Dagen hringdi til margra safnaða og kannaði afstöðu presta til málsins. Fáir prestar telja eðlilegt að gera slíka oftúlkun á hefðinni. Flestir sem giftast í kirkju líta á það sem loforð frammi fyrir Guði og telja athöfnina bara hátíðlega og hefðbundna menningu.

Langflestir telja, að það eigi að vera upp til brúðhjónanna að ákveða hvort faðirinn fylgi brúðinni eða ekki. Ekki eigi að þvinga fram val með lögbanni eins og kvenpresturinn leggur til sem gengi gegn vilja allt að helmings þeirra sem ganga í hjónaband í heildina tekið.

Vinstrivæðing kirkjunnar fælir almenning frá kirkjunni

Dagen ræddi við Helen Olsson prest. Hún telur einnig að Waldenfors sé að reyna að endurvekja dautt mál með tillögunni. Að banna þessa hefð var á borðinu frá vinstri-femínistum fyrir 20-30 árum en fékk engan hljómgrunn. Skilningur þá sem nú er að valfrelsi eigi að gilda áfram.

Annar prestur, Leif Nordlander, telur að þessi vinstrivæðing kirkjunnar leiði aðeins til þess að enn þá fleiri Svíar yfirgefi sænsku kirkjuna. Hann segir:

„Ég held að það gæti haft neikvæðar afleiðingar miðað við það hvort meðlimir sænsku kirkjunnar vilji halda áfram að vera meðlimir. Við þurfum ekki að búa til neinar frekari ástæður fyrir fólk til að ganga úr kirkjunni.”

Fara efst á síðu