Sænskur læknir neitar að breyta kyni á ungmennum

Eftir að ný kynvitundarlög Svíþjóðar tóku gildi 1. júlí s.l. geta unglingar frá 16 ára aldri farið fram á „kynleiðréttingu“ í stað 18 ára áður. Sænski læknirinn Kristofer Wennerström (t.v. á mynd) neitar að skrifa vottorð fyrir ungmenni sem vilja breyta lögkyni sínu. Í umræðugrein í Läkartidningen útskýrir hann hvers vegna hann segir nei – og beinir harðri gagnrýni að bæði heilbrigðisyfirvöldum og nýju lögunum.

Nýju lögin, sem tóku gildi 1. júlí eftir mikinn þrýsting forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson(t.h. á mynd), lækka aldurstakmark fyrir löglega kynleiðréttingu úr 18 árum í 16 ár og krafa um skilgreiningu á kynama hefur verið tekin burt.

Samkvæmt Wennerström er læknum ekki lengur heimilt að gera neitt eigið læknisfræðilegt mat, vottorðið á aðeins að staðfesta það sem sjúklingurinn fullyrðir. Wennerström skrifar:

„Vottorðið gæti því alveg eins verið gefið út af hverjum sem er, þar sem við eigum aðeins að segja það sem sjúklingurinn segir. Undirskrift okkar á vottorðið á að veita læknisfræðilegt yfirborð en það verður innihaldslaust.“

Wennerström bendir á að heili ungs fólks sé ekki fullþroskaður fyrr en þau eru orðin 25 ára og varar við því að sum ungmenni geti verið haldin „menningarsjúkdómi“ fremur en kynama. Hann vísar einnig til dæma, þar sem fólk hefur séð eftir kynleiðréttingarmeðferð og orðið fyrir óafturkræfum skaða. Hann skrifar:

„Læknisfræðin lýsir því að það séu aðeins tvö líffræðileg kyn og að kyn sé ekki eitthvað fljótandi“

„Samkvæmt þekkingarstuðningi Félagsmálastofnunar, þá skiptir þetta engu máli þegar vottorð er gefið út. Þess vegna hef ég ekki átt góðan svefn að undanförnu. Ég held að fleiri séu að glíma við þetta og þar sem Félagsmálastofnunin forðast að fjalla um hina siðferðilegu áskorunina, þá opinbera ég hug minn.“

Wennerström telur að læknar eigi núna að fylgja tveimur reglum sem eru í hrópandi þversögn hver við aðra: Annars vegar lagaskyldu um að gefa út vottorð án sjúkdómsgreiningar og hins vegar reglugerð Félagsmálastofnunarinnar sem segir að læknisvottorð skuli gefin út eftir raunverulegt mat. Wennerström útskýrir:

„Ég mun áfram hafa metnað til að fylgja æðri siðferðisreglum mínum, eins og að valda ekki skaða og treysta á læknisfræðilega dómgreind mína. Þess vegna hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég get ekki gefið út vottorðið fyrir einstaklinga á aldrinum 16–24 ára.“

Fara efst á síðu