Sænskir skattgreiðendur látnir borga fjárlagahalla Úkraínu

Sænska ríkisstjórnin og Svíþjóðardemókratar neyða sænska skattgreiðendur til að greiða fjárlagahalla Úkraínu. Stjórnmálamennirnir veita 750 milljónir sænskra króna í auka fjárhagsaðstoð til Kænugarðs árið 2025 í gegnum Úkraínuaðstoð Evrópusambandsins. (Mynd Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar t.v. og Zelenský forseti Úkraínu t.h. /© President.gov.ua).

Svíþjóð er sagt vera fyrsta landið innan ESB sem veitir aukafjármagn beint til Úkraínu á þennan hátt. Þróunar- og utanríkisviðskiptaráðherrann Benjamin Dousa hjá Móderötum segir í fréttatilkynningu:

„Svíþjóð heldur áfram að auka stuðninginn við Úkraínu. Með nýja samningnum verður Svíþjóð fyrsta landið innan ESB sem hyggst veita aukafjármagn í gegnum Úkraínuaðstoðina til að styrkja Úkraínu.

Ég er mjög stoltur af því að Svíþjóð er fyrsta landið sem gerir þetta og ryður þar með brautina fyrir önnur lönd, bæði innan og utan ESB sem vilja styðja Úkraínu með auka fjárhagsaðstoð í gegnum Úkraínuaðstoð ESB.“

Svíþjóð mun geisla af öryggi og stöðugleika

Svíþjóðardemókratar hrósa frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Aron Emilsson frá Svíþjóðardemókrötum, formaður utanríkismálanefndar sænska þingsins segir:

„Svíþjóðardemókratarnir hafa lengi verið drifkrafturinn í stuðningi við Úkraínu og að auka hlutdeild beinnar aðstoðar til Úkraínu. Stuðningur við Úkraínu er lykilatriði fyrir öryggi Evrópu og Svíþjóðar. Með þessum fjárlagastuðningi tryggjum við að Svíþjóð geisli af öryggi og stöðugleika.“

Utanríkisráðuneytið leggur áherslu á að þjóðhagslegur stöðugleiki sé ein stærsta áskorun Úkraínu fyrir árið 2026 og að áframhaldandi fjármögnun krefjist öflugra stuðningsaðgerða. Ef stríðið heldur áfram er áætlað að Úkraína þurfi allt að 40 milljarða dollara í utanaðkomandi stuðning til að standa straum af hallanum.

Viðbótarstuðningur Svíþjóðar er fjármagnaður innan fjárlagaáætlunar um þróunaraðstoð samkvæmt Úkraínuaðstoðaráætluninni. Greiðslurnar eru viðbót við ákvörðun ríkisstjórnarinnar í júní sl. um að úthluta einum milljarði sænskra króna til tækni- og þróunarverkefna fyrir árið 2025.

Úkraínuaðstoð ESB, sem var stofnuð árið 2024, nemur 50 milljörðum evra fyrir tímabilið 2024–2027 samkvæmt reglum ESB 2024/792. Greiðslur eru háðar því að Úkraína uppfylli umbótakröfur innan ramma svokallaðrar Úkraínuáætlunar.

Sænska ríkisstjórnin áætlar að senda 48,5 milljarða sænskra skattkróna til Úkraínu bara í ár. Sú tala gæti einnig hækkað.

Fara efst á síðu