Eiginlega mætti uppnefna yfirmann ESB sem Ursula von der Leiðinlegu, því lítið virðist annað koma frá henni þessa dagana nema leiðindi fyrir almenning í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Ný fjármálaáætlun ESB fyrir árin 2028-2034 gerir ráð fyrir umtalsverðum niðurskurði til landbúnaðarins sem reitt hefur sænska bændur til reiði og mun leiða til stórhækkaðs matarverðs ekki bara í Svíþjóð heldur fyrir almenning í aðildarríkjunum.
Langtímafjárlagafrumvarp framkvæmdastjórnar ESB hefur verið harðlega gagnrýnt af sænsku bændasamtökunum LRF. Þrátt fyrir metfjárlög er lagt til að verulegur niðurskurðar verði í landbúnaði sem koma mun hart niður á sænskum bændum, raska samkeppni innan ESB og að lokum leiða til hærra matvælaverðs fyrir neytendur. LRF krefst þess að sænska ríkisstjórnin grípi til öflugra aðgerða til að stöðva eða endurskoða fjárhagsáætlun ESB.
Þegar forseti framkvæmdastjórnar ESB kynnti nýja fjárlagafrumvarpið kom fram skýr mótsögn: Þrátt fyrir að heildarfjárlagaramminn sé stærri en nokkru sinni fyrr (fer frá 1.300 milljörðum evra upp í 2.000 milljarða evra) þá er lagt til að stuðningur við landbúnaðinn verði skorinn við nögl. Sænsku bændasamtökin telja að verið sé að boða alvarleg mistök, sérstaklega á tímum sem einkennast af stríðinu í Úkraínu og öryggisleysi í aðflutningum.
Samkvæmt LRF þýðir frumvarpið að styrkir sem áður voru greiddir til landbúnaðarins verða verulega skertir. Í staðinn eiga aðildarríkin sjálf að sjá um fjármagn til landbúnaðarins sem grefur undan sameiginlegri landbúnaðarstefnu og raskar samkeppni innan sambandsins. Palle Borgström, formaður LRF segir:
„Þetta er afar slæm tillaga sem framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram. Þrátt fyrir mikla gagnrýni kýs framkvæmdastjórn ESB að halda áfram með breyttri landbúnaðarstefnu sem gæti grafið undan bæði samkeppnishæfni Evrópu, grænna umskipta og matvælaframleiðslu. Þetta er sérstaklega alvarlegt fyrir Svíþjóð og sænska neytendur sem eiga á hættu að fá hærra matvælaverð.“
Sænskir bændur fara halloka í nýja kerfinu
Sænskir bændur eru þegar undir strangari eftirliti en bændur í öðrum ESB-löndum. Hættan á að sænskir bændur dragist enn frekar aftur úr í samkeppninni er því verulegur.

Nýja kerfið gæti þýtt að sum lönd halda áfram að styrkja landbúnaðinn en önnur lönd eins og Svíþjóð geri það ekki í sama mæli. Afleiðingin skekkir því alla samkeppni á innri markaðinum og veikir grundvöll matvælaframleiðslunnar.
Hærra matarverð er ógn fyrir heimilin
LRF varar við því að versnandi aðstæður sænskra bænda ógni ekki aðeins atvinnu og matvælaframleiðslu – þær bitna einnig á veskjum heimilanna. Þegar sjálfbærni minnkar og Svíþjóð verður háðari matvælainnflutningi, þá verður landið einnig viðkvæmara fyrir verðsveiflum á heimsvísu. Palle Borgström heldur áfram:
„Landbúnaður er ekki bara einhver atvinnugrein. Hann snýst um getu okkar til að framleiða mat – jafnvel á krepputímum og að almenningur innan ESB hafi aðgang að mat á sanngjörnu verði. Þess vegna verður landbúnaðarstefnan að vera til langtíma, sterk og sanngjörn.“
Sögulegt öryggi í húfi
Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB, CAP, hefur sögulega séð verið grundvöllur til að tryggja matvælaöryggi bæði á friðartímum og krepputímum. Henni var komið á eftir seinni heimsstyrjöldina einmitt til að forðast matvælaskort. Við aðstæður nútímans – með öryggisógnum og efnahagslegum óstöðugleika – er þörfin fyrir sterkri, sameiginlegri landbúnaðarstefnu meiri en nokkru sinni fyrr.
LRF hvetur því sænsku ríkisstjórnina og þingmenn ESB til að andmæla tillögu framkvæmdastjórnarinnar harðlega. Palle Borgström segir:
„Það er hreinn tvískinnungur að halda því fram að maður beri umhyggju fyrir sænskum bændum og neytendum samtímis og horft er á ESB rífa grunninn að virkum landbúnaði. Ef raunverulegur vilji er fyrir því, að sænskir neytendur geti keypt mat á sanngjörnu verði, þá er ekki hægt að láta þessa tillögu ganga í gegn. Að lokum verða sænsk heimili að greiða verðið fyrir aðhaldsleysið í stjórnmálum.“
LRF minnir á að grænu umskiptin og fjárfestingar í jarðefnaeldsneytislausum landbúnaði krefjast langtímastuðnings og sameiginlegs átaks frá öllu sambandinu og ekki að rífa niður það sem hefur verið byggt upp í áratugi.
Kröfur bænda til sænsku ríkisstjórnarinnar eru:
- Að Svíþjóð segi skýrt nei við áformum um að draga úr stuðningi við landbúnaðinn.
- Að ríkisstjórnin grípi til aðgerða til að tryggja langtíma arðsemi í sænskum landbúnaði.
- Að sænskir þingmenn ESB berjist fyrir því að tryggja að landbúnaður dragist ekki aftur úr á krepputímum.
Palle Borgström segir:
„Bændur innan ESB eru tilbúnir að standa við skuldbindingar sínar en samfélagið verður að skapa réttar aðstæður. Við þurfum samkeppni á jöfnum forsendum en ekki Evrópusamband þar sem sum lönd fjárfesta í landbúnaði á meðan önnur lönd verða eftirbátar.“