Miklir samningamenn erum vér, gætu þau hugsað með sér, þau Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar tv., Vladimír Zelenský, forseti Úkraínu og María Malmer Stenergard, utanríkisráðherra Svíþjóðar th.
Ulf Kristersson er öskuillur vegna þess að Trump dirfist að tala við Pútín án þess að bjóða Zelenský eða ESB að borðinu. Hann kallaði í hasti saman þjóðaröryggisráð Svíþjóðar til aukafundar s.l. mánudag og í kjölfarið fund í utanríkisnefnd sænska þingsins. Kristersson hefur greinilega lært ESB lexuna sína: hegðar sér eins og móðguð hefðarfrú, þegar þeir stóru hittast og ESB er ekki einu sinni á blaði.
Sænska ríkisstjórnin sér enga aðra framtíð en stríð gegn Rússum, nema að Rússar hendi frá sér vopnum og hlaupi á brott frá Krímskaga, Dónetsk og öðrum svæðum sem þeir hafa á valdi sínu. Sænski forsætisráðherrann sendir þá viðvörun til Trumps að „engar samningaviðræður verði um Evrópu án þátttöku Evrópu (ESB).“ Hann og aðrir ráðamenn ESB vilja ráða því við hverja Trump talar. Kristersson og van der Leyen næra botnlaust hatur á Donald Trump og eru í losti yfir öllum sjálfstætt hugsandi Bandaríkjamönnum.
Eftir öll fundahöldin upplýsti Kristersson síðan sænsku þjóðina um að sænska ríkisstjórnin væri að búa sig undir mismunandi sviðsmyndir, allt eftir því hvernig viðræðurnar milli Bandaríkjanna og Rússlands þróast. Hann skrifar á samfélagsmiðlum:
„Hvernig stríði Rússlands gegn Úkraínu lýkur mun hafa áhrif á öryggi okkar í að minnsta kosti eina kynslóð fram í tímann.
Ég mun núna í vikunni halda áfram samtölum við evrópska kollega mína. Engir samningar um Úkraínu án Úkraínu, engir samningar um Evrópu án Evrópu (lesist ESB).“
Ráðherrar flestra ESB-ríkja hittast reiðir og hljóma eins og fuglabjarg við Látrabjarg. Síðan fer hver til síns heima og segist hafa bjargað heiminum á fundi í ESB. En ESB er sem sagt ekki aðili við borðið. Það svíður.
