Sænska ríkisstjórnin samþykkti alræðiseftirlit Evrópusambandsins á Internet með stuðningi krata

Sænska ríkisstjórnin sem þykist bæði vera frjálslynd og hlynnt mannréttindum, gerði bandalag við jafnaðarmenn gegn Svíþjóðardemókrötum og samþykkti alræðiseftirlitslög Evrópusambandins „Chat Control.“

Eftirlit með öllum stafrænum samskiptum þýðir, að allir samskiptamiðlar á netinu eru skuldbundnir að hafa opnar bakdyr fyrir „stóra bróðir ríkið“ svo ekki eitt orð verður lengur einkamál. Dulkóðuð öpp eins og Whats App, Telegram, Facebook Messenger og fleiri verða framvegis opin fyrir starfsmenn ríkisins sem geta farið inn og lesið það sem fólk skrifar sín á milli.

ESB heldur að það stjórni öllum heiminum

Spjalleftirlitslögin eru sögð hafa þann verðuga tilgang að vernda börn fyrir aðkasti barnaníðinga á netinu. Gagnrýnendur telja hins vegar að þegar möguleiki á fjöldaeftirliti er til staðar, þá mun hann verða notaður í öðrum tilgangi.

Meðal netsérfræðinga er nánast einhugur um, að lögin séu lýðræðislegur vanskapnaður sem skerðir viðurkennd borgaraleg réttindi til friðhelgi einkalífs. Texta var bætt við lokatillöguna um að einungis megi nota fjöldaeftirlit í ákveðnum tilgangi en margir telja það vera sjónarspil til að friða gagnrýnendur og í rauninni einskis virði ef á þarf að halda. Karl Emil Nikka öryggissérfræðingur í stafrænni upplýsingatækni hefur varað við afleiðingum alræðiseftirlitsins:

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðist hafa þá brengluðu hugmynd, að það sé ESB sem stjórni öllum heiminum. Ef við þvingum fram opnun bakdyra í tölvuforritin og setjum síðan lög um að einungis megi fara inn til að leita að efni um misnotkun barna, þá þýðir það á engan hátt að ríkið, fyrirtæki og aðrir aðilar muni forðast að skoða annað í leiðinni.“

Chat Control mótmælt í Þýskalandi. Mynd Jakob Rieger.

Ríkisstjórnarflokkarnir gerðu bandalag með jafnaðarmönnum til að koma alræðiseftirlitinu í gegn

Sænsku ríkisstjórnarflokkarnir, Móderatar, Kristdemókratar og Frjálslyndir, gerðu bandalag við jafnaðarmenn til að koma eftirlitslögunum í gegnum sænska þingið. Svíþjóðardemókratar lögðust gegn eftirlitinu og án krata hefði ríkisstjórnin ekki getað veitt ESB þetta alræðisvald. Auk Svíþjóðardemókrata greiddu Miðflokkurinn, Vinstriflokkurinn og Umhverfisflokkurinn atkvæði gegn lögunum.

Adam Marttinen sem starfar sem tímabundinn formaður dómsmálanefndar sænska þingsins gagnrýnir harðlega, að Svíþjóð opni dyrnar fyrir ríkið til að njósna um meðborgarana. Hann segir í viðtali við Göteborgs Posten:

„Við teljum að þessi tillaga sé allt of víðtæk og að dulkóðun sé þar með rofin. Ef tillagan gengur í gegn og verður að lögum um allt ESB, þá er leiðin opin fyrir fjöldaeftirlit. Traust á dulkóðaðri þjónustu mun hverfa.“

Fara efst á síðu