Sænska félagsmálastofnunin ætlar að rannsaka af hverju „börn skjóta og sprengja“

Sænska félagsmálastofnunin varar við aukinni þátttöku barna í alvarlegu ofbeldi og skipulagðri glæpastarfsemi í Svíþjóð. Í fréttatilkynningu frá stofnuninni segjast yfirvöld „þurfa að vita meira um börnin sem skjóta og sprengja.“

Glæpahópar notfæra sér börn og draga þau inn í glæpamennskuna með hótunum og blekkingum og að undanförnu sem starfsmenn unglingaheimila og tómstundaklúbba. Það gengur bara býsna vel. Fréttir að undanförnu greina frá starfsmönnum unglingahæla sem tilheyra glæpahópum og útskrifa börn og unglinga beint í glæpamennsku þaðan. Þagnarskylda yfirvalda reisir múra milli lögreglu, félagsmálastofnunar og skólanna og ríkir öngþveiti í þeim málum sem er hindrun í þróun réttvísinnar.

Samstarfstregða yfirvalda hluti af glæpavanda Svíþjóðar

Sænska félagsmálastofnunin segist núna ætla að rannsaka alla áhættuþætti til að átta sig betur á því til hvaða úrræða hægt sé að grípa til svo stöðva megi straum barna í glæpamennskuna, líka hjá stofnunum sem félagsmálastofnunin sjálf ber ábyrgð á. Björn Eriksson yfirmaður félagsmálastofnunar segir mikilvægt að bregðast snemma við:

„Að börn séu viðriðin alvarleg ofbeldisverk er alvarlegt vandamál sem snertir allt samfélagið. Við verðum að verða betri í því að bregðast tímanlega við. Þess vegna er mikilvægt að við þróum stöðugt þá þekkingu sem þarf til að samfélagið geti náð til þessarra barna mun fyrr en við gerum í dag.“

Rætt um að „samnýta“ þekkingu um glæpamenn

Samstarfsverkefnið BOB (Börn og unglingar í skipulagðri glæpastarfsemi) hefur sýnt að skilvirkara samstarf lögreglu, félagsmálastofnunar og annarra aðila getur styrkt öryggisnetið í kringum útsett börn. Annika Öquist deildarstjóri leggur áherslu á mikilvægi sameiginlegs átaks og leggur áherslu á að nýta þurfi betur þá þekkingu sem þegar er til staðar um áhættu- og verndarþætti. Hún segir:

„Við sjáum að BOB getur stuðlað að því að fylla upp í nokkrar eyður sem voru í starfinu við að koma í veg fyrir að börn tækju þátt í skipulagðri glæpastarfsemi. Til dæmis þá er þörf á skilvirkara samstarfi, þegar börn eru vistuð í samfélagsþjónustu og að heilbrigðis- og læknishjálp komi að sem mikilvægur aðili á svæðis- og staðbundnum vettvangi. Samnýtt þekking stuðlar að sterkara öryggisneti í kringum börn og ungmenni.“

Vinstrimennskan greiðir götu glæpamennskunnar

Svíar eru langt á eftir öðrum þjóðum vegna tepruskapar gagnvart glæpamönnum og ónýtrar gamaldags samfélagsbyggingar, þar sem lítil samvinna er á milli mismunandi opinberra aðila eins og lögreglu, félagsmálastofnunar og skólanna. Þar er vitnað til þagnarskyldu sem er eins og varnarhjúpur fyrir börn og unglinga sem fremja glæpaverk.

Enginn þarf að vera hissa, þegar stór hluti kennara og starfsmanna félagsmálastofnunar segjast munu neita að tilkynna ólöglega innflytjendur sem þeir rekast á í störfum sínum til lögreglunnar. Ríkisstjórn Svíþjóðar getur ekki einu sinni komið slíkri tilkynningarskyldu á í Svíþjóð. Hvernig á þá að vera hægt að takast á við vandann fyrst svona margir vernda glæpaumhverfið og sjálfa glæpamennina?

Fara efst á síðu