RÚV leggur þjóðfélagsgrunninn í rúst

Engin íslensk stofnun hefur sýnt landsmönnum og landslögum meiri lítilsvirðingu og hroka en Ríkisútvarpið. Lög um RÚV nr. 23/2013, 3. gr. 4. mgr. kveður skýrlega á um hvernig starfsmenn þess skuli haga starfsháttum sínum:

  1. Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð. […]
  2. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum. […]
  3. Vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum.
  4. Stunda fréttamennsku.

Lögin eru skýr: Starfsmenn RÚV eiga að vera til fyrirmyndar um sanngirni, hlutlægni og fagmennsku. Þeim ber að sannreyna heimildir, kynna allar hliðar máls á jafnræðisgrundvelli og vera óháðir pólitískum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum. Þetta eru ekki háleitar hugsjónir heldur lágmarkskröfur til opinbers fjölmiðils, sem fjármagnaður er af skattfé almennings og hefur það hlutverk að þjóna almannahagsmunum.

Fréttaflutningur og dagskrárgerð stofnunarinnar sýna hins vegar að annað hvort þjálfar RÚV starfsfólk sitt til að brjóta beinlínis gegn ákvæðum og anda laganna eða það ræður einstaklinga sem eru svo fávísir, að þeir skilja ekki grundvallarhugtök sem skilgreina verksvið þeirra og störf.


Alkunna er að pólitísk vinstri slagsíða er og hefur lengi verið skilyrði fyrir ráðningu á fréttastofu og í dagskrárgerð RÚV. Þrátt fyrir þetta hafa margir starfsmenn RÚV í gegnum tíðina getað skilgreint á milli skoðana og staðreynda og haft nægilega góðan skilning á tungumálinu til að forðast notkun gildishlaðinna orða. En þeir heyra fortíðinni til.

Innra rot RÚV

Aðalvandamál RÚV er auðvitað að stofnunina skortir vilja til að framleiða hlutlausar og sanngjarnar fréttir og dagskrá. Í dag er markmið RÚV bókstaflega að spúa pólitískum áróðri yfir landsmenn og stjórnendum stofnunarinnar er sama þó að í leiðinni geti fólk þurft að greiða fyrir þetta stefnumið með æru og aleigu.

Skaðabótamál Elds Smára Kristinssonar gegn RÚV og Bergsteini Sigurðssyni, fréttamanni sýnir ekki aðeins innra rot RÚV, heldur beinlínis ásetning til ósanninda og rógburðar. Í svokölluðum fréttaþætti, Forystusætið, fullyrti Bergsteinn, stjórnandi þáttarins, að Eldur hefði verið „fjarlægður af lögreglu úr grunnskóla,“ að Eldur hefði „sakað þá sem berjast fyrir réttindum transfólks um barnaníð,“ og „þrástaglast um að… ‘nafngreind íslensk baráttukona’ sé karl.“

Þátturinn var sýndur 26. nóvember sl., fjórum dögum fyrir alþingiskosningarnar. Næsta dag var RÚV send krafa um leiðréttingu og afsökunarbeiðni.

RÚV hafnaði kröfu Elds um að fá að koma fram í miðlinum til að bera af sér uppálognar ásakanir fréttamanns stofnunarinnar, en birti þess í stað væskilslega leiðréttingu að hluta í neðanmálsgrein á vef stofnunarinnar: „Í viðtalinu var sagt að Eldur Smári Kristinsson…hefði mætt óboðinn í grunnskóla og verið fjarlægður af lögreglu. Hið rétta er að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar tilkynnti málið til lögreglu.“

Lítum nánar á ummæli Bergsteins: Eldur „hefur sakað þau sem berjast fyrir réttindum transfólks um barnaníð, þar á meðal nafngreinda íslenska baráttukonu, hann hefur líka þrástagast um að hún sé karl, farið mjög klúrum og ruddalegum orðum um kynfæri hennar á opinberum vettvangi…“

Til að geta skrifað hlutlausar fréttir verða fréttamenn, eins og fyrr segir, að geta skilgreint á milli skoðana og staðreynda og hafa nægilega góðan skilning á tungumálinu til að geta forðast notkun gildishlaðinna orða í fréttum. Ósagt skal látið hvort Bergstein skortir þessa færni eða hvort ætlun hans var ærumeiða Eld með orðum eins og „þrástagast“ og „baráttukona“ [um manneskju sem í raun er karlmaður, en ekki kona] í ummælum um Eld í lok þáttarins!

„Trans“ er flokkunarvilla

Undirstaða vandans í umræðu um „trans“ og málefni „transfólks“ – er ekki aðeins tungumálafræðileg, heldur tilvistarleg. Í fyrsta lagi eru „trans“ kenningar afar umdeild hugmyndafræði. Í öðru lagi er það flokkunarvilla að tala um „transfólk“ eins og um sé að ræða sérstakan undirflokk fólks. Margir, sérstaklega meðlimir stjórnmála- og fjölmiðlaelítunnar, sem Bergsteinn tilheyrir, eru hins vegar á öðru máli. Þrátt fyrir að „trans“ kenningarnar séu í raun „20/80“ mál og að yfirgnæfandi meirihluti almennings trúi ekki að „transfólk“ sé einhvers konar þriðja tegund mannvera, talar fólk í fjölmiðlum og stjórnmálum eins og þriðji fósturvísirinn hafi þegar verið fram reiddur og ekkert sé hér til umræðu.

„Transfólk“ eða „trans“ einkennandi einstaklingar eru allir annað hvort karlkyns eða kvenkyns og allir annað hvort sam- gagn- eða tvíkynhneigðir, með öll (og meiri) þau réttindi sem aðrir þjóðfélagsþegnar njóta. Sem sagt, alveg eins og allir aðrir. Þó Bergsteinn og kollegar hans vilji ekki viðurkenna það, eru „réttindi transfólks“ sem umrædd „baráttukona“ berst fyrir ekki sjálfsögð mannréttindi, heldur umdeildar kröfur um ýmis sér- og forréttindi––m.a. rétt til útlitsbreytandi skurðaðgerða á kostnað skattborgara og ríkisútgáfu falsaðra persónuskilríkja––sem þeim hafa þegar verið veitt og kröfur um „transferli“ barna, sem er læknisfræðileg tilraunastarfsemi á börnum og ungmennum í því skyni að „breyta“ kyni þeirra. Þó Bergsteinn sé því e.t.v. persónulega ósammála að kalla slíkt ofbeldi „barnaníð“ og vilji, eins og flestir kollegar hans, láta sem alheimur hafi lagt blessun sína yfir það, veit hann að sjálfsögðu að margar þjóðir hafa bannað þetta grófa brot á mannréttindunum til kynþroska.

Markmiðið er heimskuvæðing

Við stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930 var stofnuninni falið það göfuga verkefni að upplýsa íslenskan almenning, en í dag virðist helsta markmið RÚV hins vegar vera að heimskuvæða þjóðina. Rógburður Ríkisútvarpsins og tilraun þess til mannorðsmorðs á flokksframbjóðanda nokkrum dögum fyrir alþingiskosningar ætti að fá Alþingi Íslendinga til að berja loks á borðin niðri í Efstaleiti. Það er óskiljanlegt með öllu hvernig þingmönnum finnst í fínu lagi að bjóða landsmönnum upp á þessi vinnubrögð ár eftir ár.

Sem helsti frétta- og upplýsingamiðill þjóðarinnar mótar Ríkisútvarpið – hvort sem okkur líkar betur eða verr – hvernig við lítum á okkur sjálf og samfélag okkar. Eitt af skilyrðunum fyrir heilbrigðu og starfhæfu lýðræðisþjóðfélagi er sameiginlegur grundvöllur staðreynda; RÚV ber lagaskylda til að nota umboð sitt og fjármagn til að tryggja þessa undirstöðu. Með því að bregðast þeirri skyldu sinni að „veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu“ er Ríkisútvarpið bókstaflega að leggja hinn sameiginlega þjóðfélagsgrunn okkar í rúst.

Fara efst á síðu