Ritskoðun kynnt sem „lausn“ á mótmælum „öfgaskríls“ í Bretlandi

Samfélagsmiðlar valda því að „öfga hægristefnan“ vex á Englandi, að sögn „sérfræðingsins“ James Tapper. Segir Tapper, að „öfgaöflin séu núna hættulegri en nokkru sinni fyrr.“ Bendir Tapper á, að mótmæli gegn hömlulausum innflutningi fólks séu enn og aftur að laða til sín fjölda manns og að sambærileg mótmæli hafi ekki sést í landinu síðan 2018. Gríðarleg mótmæli hafa verið í Bretlandi eftir morðin á börnunum í Southport. Forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, kallar mótmælendur „öfgasinna.“

Bretar eru orðnir langþreyttir á fjöldainnflutningnum og ofbeldi sem tengist innflytjendum. Undanfarna daga hafa hörð mótmæli átt sér stað víða um land í kjölfar barnamorðanna í Southport og var kveikt í lögreglustöð í Sunderland og yfir 90 manns handteknir.

James Tapper skrifar grein í The Guardian um vöxt „hægri öfgastefnunnar“ í Bretlandi. Kennir Tapper Elon Musk um að kynda undir hatrið, þar sem hann opnaði X reikninga manna eins og Tommy Robinson sem áður voru ritskoðaðir eða lokaðir.

Robinson skipulagði mótmæli gegn ofbeldinu í Bretlandi þann 27. júlí sem laðaði að 20.000 manns í London (sjá X að neðan). Robinson hefur marga fylgjendur sem lásu færslur hans um Rúandamanninn sem myrti þrjár stúlkur í Southport. Tapper telur að með því að afnema málfrelsi manna eins og Robinson, þá muni fólk mótmæla stefnu yfirvalda í minna mæli.

Tapper vísar til prófessors Stephan Lewandowsky sem heldur því fram „að samfélagsmiðlar magni upp gagnrýnisraddir á innflytjendum.“ Að sögn prófessorsins er þetta „alvarlegt vandamál“ sem hægt er að leysa með því að ritskoða færslur sem geta vakið neikvæðar tilfinningar í garð innflytjenda.

„Það eru nokkuð góðar sannanir fyrir því að útilokun frá samfélagsmiðlum virkar. Ef þú kastar einhverjum út, þá minnka áhrif hans. Fólkið sem fylgdi honum fer þá einnig annað.“

Grein Tapper sýnir, að hörð viðbrögð almennings í Bretlandi undanfarna daga eru talin raunveruleg ógn við kerfið.

Fara efst á síðu