Ríkisfjölmiðlarnir útiloka leiðtoga AfD – verður á X með Elon Musk í staðinn

Alice Weidel, leiðtogi Valkosts fyrir Þýskaland, AfD, er ekki boðin þátttaka í lokaumræðu kosningabaráttunnar í þýska sjónvarpinu, þótt flokkur hennar sé næst stærstur í könnunum. Elon Musk hefur boðið henni í staðinn til samtals á X. Musk segir varakanslara Þýskalands vera svikara við fólkið.

Ríkisreknu fjölmiðlarnir ARD og ZDF hafa ákveðið að bjóða eingöngu Olaf Scholz kanslara, SPD, og Friedrich Merz leiðtoga CDU í stóru sjónvarpskappræðurnar þann 9. febrúar. Þessi ákvörðun hefur vakið harða gagnrýni, þar sem Valkostur fyrir Þýskaland, AfD, mælist núna sem næst stærsti flokkur Þýskalands í skoðanakönnunum.

Alice Weidel, flokksleiðtogi AfD, tilkynnir í færslu á X, að klukkan 19:00 þann 9. janúar muni hún taka þátt í beinu samtali á X með Elon Musk, eiganda X. Alice Weidel skrifar á X:

„Við hlökkum til þessa spennandi samtals og frábærra áhorfenda!“

Valkostur fyrir Þýskaland er það eina sem getur bjargað Þýskalandi

Frumkvæði Elon Musk hefur fljótt ratað í fyrirsagnir bæði í þýskum og alþjóðlegum fjölmiðlum og er það tekið sem dæmi um hvernig núna sé hægt að nota samfélagsmiðla til að sniðganga yfirburði rótgróinna fjölmiðla.

Í Þýskalandi eru valdamenn öskuillir yfir afskiptum Elon Musks og segja að hann sé ógn við „þýska lýðræðið.“ Ekki lægðust öldurnar þegar Musk kallaði Robert Habeck, varakanslara Þýskalands, svikara á föstudaginn.

Elon Musk hefur opinberlega hvatt Þjóðverja til að kjósa AfD. Hann lýsir flokknum sem „því eina sem getur bjargað Þýskalandi.“

Þýsku þingkosningarnar fara fram þann 23. febrúar.

Fara efst á síðu