Rektornum verði vikið úr starfi

Jón Steinar Gunnlaugsson fv. Hæstaréttardómari ritar á Facebooksíðu sinni eftirfarandi grein um framferði ofstækismanna í Háskóla Íslands sem hleyptu upp fundi prófessors um gervigreind vegna þess að hann er gyðingur:

Rektornum verði vikið úr starfi

Það er ótrúlegt að heyra um framferði ofstækismanna í Háskóla Íslands þegar hleypt var upp fundi þar fyrir skemmstu. Sögðust þeir vera ósáttir við þjóðerni ræðumannsins. Það er eins og þessir ofstækismenn séu komnir aftan úr forneskju í aðgerðum sínum gegn tjáningarfrelsi hér á landi. Framferði þeirra er ósæmilegt á alla mælikvarða. Viðbrögð yfirvalda í Háskólanum eru ennþá verri. Rektor Háskóla Íslands ætti auðvitað að ganga fremstur í að fordæma þessa árás á tjáningarfrelsi á vettvangi skólans. En frá honum hefur hvorki heyrst hósti né stuna.

Morgunblaðið birti forystugrein um þetta ofbeldi sem birtist í blaðinu í dag 25. ágúst. Hér fylgir mynd af greininni. Þar er sagt flest sem segja þarf um málið. Eitt vantar þó í frásögn blaðsins. Það er krafa um að rektor skólans, sem nýlega hefur tekið við störfum með hátíðlegum yfirlýsingum um tjáningarfrelsi á vettvangi skólans, verði þegar í stað vikið úr starfi. Það hlýtur að vera skýlaus krafa allra þeirra sem segjast styðja tjáningarfrelsi að víkja beri þessum æðsta yfirmanni skólans þegar í stað úr starfi, því hann beitir hér sýnilega þögninni til samþykkis við þessu ofbeldisverki. Í húfi er virðing Háskóla Íslands.

Fara efst á síðu