Rafmagnsleysi Spánar ætti ekki að koma neinum á óvart

Fólk reynir að kaupa mat í myrkri rafmagnsleysisins á Spáni.

Íris Erlingsdóttir hefur fylgst með fréttum af rafmagnsleysi á Spáni sem olli víðtækustu truflunum í Evrópu á friðartímum. Hér greinir hún frá því að í raun hafi allt evrópska rafkerfið hrunið vegna óstöðugleika af völdum vind- og sólarorku.

Sérfræðingar hafa varað við því í áraraðir sem stjórnmálamenn hafa hunsað, að stöðugleiki rafkerfisins hverfur, þegar yfirgnæfandi orka kemur frá vind- og sólarorkugörðum. Sveiflur þessa kerfis eru miklar og þegar stöðugleika rafala kjarnorkuvera og vatnsveita skortir, þá hrynur kerfið eins og raunin varð á á Spáni í gær.

Fyrir sex dögum fögnuðu spænskir fjölmiðlar þeim áfanga að í fyrsta sinn á virkum degi starfaði raforkudreifikerfi landsins eingöngu á endurnýjanlegri orku. Klukkan 12:35 að staðartíma þann 28 apríl slokknaði á ljósunum um allan Spán og Portúgal og í hlutum Frakklands. Það gæti tekið viku að endurheimta rafmagn að fullu á Spáni og í Portúgal. Spánn hefur lýst yfir neyðarástandi og rafmagnsleysið nær a.m.k. til 50 milljón manns. Þetta er víðtækasta rafmagnsleysi í Evrópu á friðartímum.

Á augabragði þagnaði rafmagnssuð nútímalífs — lestir, sjúkrahús, flugvellir, símar, umferðarljós, peningakassar. Tugmilljónum manna var samstundis steypt í ringulreið, rugling og myrkur. Fólk sat fast í lyftum. Neðanjarðarlestir stöðvuðust á milli stöðva. Bensínstöðvar gátu ekki dælt eldsneyti. Matvöruverslanir gátu ekki tekið á móti peningagreiðslum. Örvæntingarfullir flugumferðarstjórar beindu flugvélum annað þegar flugstjórnarkerfi brugðust. Vara-rafalar fóru í gang á sjúkrahúsum en gátu samt ekki mætt fullri þörf. Farsímasendar hrundu undan álagi.

Fimm mínútum fyrir rafmagnsleysið starfaði raforkukerfi Spánar undir mjög óvenjulegum og hættulegum aðstæðum. Sólar-íspennuljósnemi, sólarhiti og vindorka sáu samanlagt um 78% af allri orkuframleiðslunni. Kjarnorka veitti um 11,5%. Samframleiðsla, aðallega iðnaðarúrgangs-hitaver, bætti við öðrum 5%. Gasdrifnar verksmiðjur lögðu til 3%—minna en eitt gígavatt yfir allt netið.

Þetta þýddi að nánast engin stýranleg, snúningsbundin orkuframleiðsla var virk. Engar þungar túrbínur. Enginn skriðþungi til að koma á stöðugleika. Nánast engin tregða, eðlisfræðilegi eiginleikinn sem stenst skyndilegar breytingar á hreyfingu, og sem hefur stabilíserað raforkukerfi í yfir 100 ár.

Búið að vara við þessu árum saman

Þegar truflunin skall á um klukkan 12:35, hafði kerfið ekkert til að standast hana. Tíðni netsins, í raun hjartsláttur kerfisins, hrundi samstundis. Truflunin hafði ekki aðeins áhrif á Spán. Lækkun á tíðni netsins mældist um allt meginland Evrópu.

Þetta var ekki bara spænskt rafmagnsleysi. Allt evrópska raforkunetið hrundi.

En þetta ætti ekki að hafa komið á óvart. Menn hafa í áraraðir skilið eðlisfræðina sem liggur til grundvallar raforku. Sérfræðingar höfðu ítrekað útskýrt veikleika kerfisins með nákvæmum tæknilegum viðvörunum, sem ráðandi pólitíkusar hunsuðu.

Þetta var ekki tilviljun. Þetta var ekki ófyrirséð. Þetta var nákvæmlega sú bilun sem margir hafa ítrekað varað löggjafann við í áraraðir — viðvaranir sem pólitískir leiðtogar Evrópu völdu kerfisbundið að hunsa.

Fara efst á síðu