Ráðamenn Evrópu búnir að missa vitglóruna – Fyrri hluti

Íris Erlingsdóttir hefur tekið saman yfirlitsgrein um það stríðsbrjálæði sem gripið hefur um sig meðal ráðamanna ESB og Bretlands. ESB samþykkti nýlega að breyta fjármagnskröfum sambandsins svo aðildarríkin geta tekið lán til að kaupa vopn og hervæðast. Talað er um að gera ESB að hernaðarveldi á heimsvísu og nú á að stofna svo kallað „Sparnaðar og fjárfestingasamband“ svo hægt verði að gera fjárnám í séreignum lífeyrissjóða og almennings til að kosta uppbyggingu hins mikla herveldis. Rætt er um að beita kjarnorkuvopnum og þjóðir ESB vilja senda hermenn í stríð við Rússland. Engu er líkar en að leiðtogar Evrópu séu búnir að missa vitglóruna. (Þetta er fyrri hluti greinarinnar, sá síðari birtist fljótlega).

Bæta við nýrri færslu

Leiðtogar Evrópu eru búnir að missa vitglóruna. Stríðsáróðursherferðin í Evrópu, sem hófst í kjölfar frægs fundar Zelenskís og Trumps í Hvíta húsinu, er komin út í öfgar. Viðbrögð Evrópskra leiðtoga við fundinum voru eins og þeir hefðu orðið vitni að hræðilegustu atburðum mannkynssögunnar.  Trump hefur hins vegar talað skýrt um samband Bandaríkjanna og Evrópu í mörg ár. Efasemdir hans um tilveru Nató og sérstaklega um útgjöld Bandaríkjanna til verndar Vestur-Evrópu eru ein af ástæðunum fyrir því að elítur beggja álfanna snerust gegn honum. Trump sagði á Nató-fundi í maí 2017:

Ég hef verið mjög hreinskilinn við Stoltenberg framkvæmdastjóra og aðildarríki bandalagsins og sagt að Nató-ríkin verði loksins að leggja sitt réttmæta framlag á borðið… 23 af 28 aðildarríkjum greiða enn ekki fyrir varnir sínar það sem þau eiga að greiða… Þetta er ekki sanngjarnt gagnvart bandarískum almenningi og skattgreiðendum… Undanfarin átta ár hafa Bandaríkin lagt fram meira til varnarmála en öll önnur Nató-ríki til samans.

Upphaflega hugmyndin var sú að Bandaríkin myndu vernda Evrópu gegn Sovétríkjunum sem eru ekki lengur til. Á meðan varnir Evrópu kosta Bandaríkin gífurlegar fjárhæðir, þá hafa Evrópubúar komist hjá því að verja háum upphæðum til eigin varnarmála. Þetta er ástæðan fyrir því að þeir njóta þeir félagslegra velferðarprógramma ólíkt Bandaríkjamönnum. 

Þó Evrópskir leiðtogar tali eins og töffarar, vita þeir að þeir geta ekki gert neitt upp á eigin spýtur. Enginn er hræddur við þá nema Bandaríkin standi að baki þeim. Í fyrsta skiptið, er nú möguleiki á að þeir fái ekki þann stuðning, svo þeir eru ráðalausir. Annars vegar geta þeir ekki verið varnarlausir, svo þeir vilja byggja upp varnir Evrópu. Hins vegar gera efnahags- og stjórnmálaaðstæður álfunnar þeim það ófært. 

ESB sker niður velferðarkerfið til að byggja upp stríðsríkið

ESB yfirgefur velferð fyrir stríðsrekstur: „Evrópa verður að skera niður velferðarkerfi sitt til að byggja upp stríðsríki. Það er engin leið til að verja álfuna án niðurskurðar á félagslegum útgjöldum,“ sagði í grein í Financial Times í síðustu viku. Evrópubúar standa nú frammi fyrir þeirri staðreynd að velferðarkerfi þeirra var í raun undir Bandaríkjunum komið, en ekki þeim sjálfum, og Trump hefur sagt að nú sé nóg komið. 

Rausnarlegt velferðarkerfi hefur lengi verið hluti af evrópsku lífi. Evrópubúar telja sig hafa rétt á alhliða heilbrigðisþjónustu, 35 klukkustunda vinnuviku, starfslokum við 62 ára aldur, löngu fæðingarorlofi fyrir báða foreldra og sex vikna sumarfríum, allt á fullum launum. Evrópubúum líkar þetta svo vel – að þegar Emmanuel Macron, forseti Frakklands, lagði til hækkun eftirlaunaaldurs í Evrópu, þá brutust út mótmæli og óeirðir um allt Frakkland.

Velferðarmenning Evrópu krefst gríðarlegs opinbers stuðnings og endurúthlutunar fjár í gegnum skatta. En upphaflegir íbúar Evrópu eru bókstaflega að deyja út. Eldri kynslóðir eru að deyja, frjósemistölur eru ekki nálægt viðhaldsstigi og eins og í Bandaríkjunum, þá virkar ekki kerfið, þegar færri greiða í almannatryggingar og velferðarkerfið en allur fjöldinn sem reiðir sig á það. Evrópa hefur flutt inn gífurlegan fjölda innflytjenda sem valdið hefur spennu í þjóðfélaginu og skilar sér í auknum stuðningi við hægri flokka.

ESB á að verða hernaðarlegt stórveldi á heimsvísu

Hagkerfi Evrópusambandsins er undir miklu álagi af ýmsum ástæðum en núna tala evrópskir leiðtogar um að ESB eigi að verða hernaðarlegt stórveldi á heimsvísu. Þeir leggja til að varið verði sambærilegum fjárhæðum og Kína eða Bandaríkin hafa í útgjöld til hernaðarmála, því þeir telja að ekki sé lengur hægt að reiða sig á vernd Bandaríkjanna með Trump sem forseta.

Evrópusambandið er í eins konar stríðsóðu brjálæðissástandi. Þýskaland talar um nauðsyn þess að kjarnorkuvopnavæðast til að takast á við Rússland. Það síðasta sem nokkur mannvera á þessari plánetu myndi vilja með tilliti til atburða 20. aldar, – fyrri og seinni heimsstyrjöldina, er að Þjóðverjar fari aftur að æsa sig upp gegn Rússlandi. Tal þýskra leiðtoga um að senda þýska skriðdreka austur á bóginn í átt að rússnesku landamærunum gegnum Úkraínu er brjálæði. Evrópskir leiðtogar hljóma eins og karakterar úr Doctor Strangelove. Í frétt CNN 6. mars sl. segir:

„Evrópskir leiðtogar samþykktu hækkun varnarútgjalda á mikilvægum fundi um Úkraínu… Allir 27 leiðtogar Evrópu gáfu grænt ljós á tillögur sem gætu losað milljarða evra til að auka varnarútgjöld. Þeir kölluðu eftir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins finni nýjar leiðir til að ‚auðvelda umtalsverð varnarútgjöld á landsvísu í öllum aðildarríkjum.‘ Leiðtogarnir bentu á tillögu Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, sem myndi veita löndum lán allt að 150 milljörðum evra.

Fara efst á síðu