Pólska ríkið fjárfestir í framleiðslu „Frankenstein-kjöts”

LabFarm, sem er eina fyrirtækið í Póllandi sem framleiðir kjöt ræktað á rannsóknarstofu, fær hundruðum milljóna króna í ríkisstyrk til að auka starfsemi sína. Styrkurinn mun hjálpa fyrirtækinu að auka afkastagetu sína og „skala upp“ framleiðsluna.

Fyrirtækið var stofnað árið 2022 og segist framleiða „hreint, ósvikið kjöt“ sem er „einnig öruggara (en hefðbundin framleiðsla) vegna þess að það er laust við sýklalyf og önnur aðskotaefni.“ Aðallega hafa þeir einbeitt sér að kjúklingavörum, fyrirtækið kynnti „kjúklingabollur” fyrr í ár.

Í stuttu máli, þá er kjöt sem ræktað er á rannsóknarstofu gert úr stofnfrumum sem teknar eru úr dýrum og síðan eru „ræktaðar“ og verða að ýmsum „kjötvörum.” Sumum finnst þetta vera góð aðferð og umhverfisvænni en venjulegur landbúnaður með prumpandi nautgripum í dag. Margir aðrir gagnrýna aðferðina harðlega og gárungarnir kalla afurðina „Frankensteinkjöt” til samanburðar við skrímslið Frankenstein sem öðlaðist líf á rannsóknarstofu. Rannsóknarstofukjötið ógnar starfsemi hefðbundinna bænda og ríki eins og Ítalía og Flórída hafa bannað „kjöt” sem ræktað er á rannsóknarstofu.

LabFarm fær níu milljónir pólskra zloty, sem samsvarar rúmlega 322 milljónum íslenskra króna, í styrk frá Rannsóknar og þróunarstofnun pólska ríkisins „National Center for Research and Development (NCBiR).” Samkvæmt heimildum Notes frá Póllandi ýtir styrkurinn enn frekar undir framleiðslu á gervikjötinu:

„Að fá styrkinn þýðir að LabFarm getur framkvæmt rannsóknaráætlun sem felst í því að auka framleiðni og stækka framleiðslugetuna, hagræða lífferlum, vinna með séruppskriftir að næringarefnum, skipuleggja matvöruframleiðsluna og auka atvinnu.”

Enn fremur skrifar LabFarm að það muni nýta styrkinn meðal annars til að fjölga starfsmönnum og búa til frumgerð af blautdýrafóðri, segir á Facebook. Fyrirtækið ætlar einnig að auka starfsemi sína og selja vörur sínar um alla Evrópu.

Fara efst á síðu