Pentagon hefur pantað rannsókn á því, hvaða áhrif kjarnorkustríð í Evrópu myndi hafa á matvælaframboð í heiminum. Rannsóknin verður gerð með forritinu AgriShock, sem er hugbúnaður sem líkir eftir áhrifum kjarnorkustríðs á landbúnaðinn.
Upphaflega var tilgangur hugbúnaðarins sá að gera bændur í ESB betur í stakk búna til að takast á við geislavirkt niðurfall, mengað vatn og dauðsföll meðal dýra og starfsfólks.
Samkvæmt innkaupabeiðni Pentagon mun rannsóknin, sem keypt var, einnig beinast að svæðum „handan Austur-Evrópu og Vestur-Rússlands“ sem eru skjálftamiðja hins ímyndaða kjarnorkustríðs í stríðsáætlun Bandaríkjanna.
Verkefninu verður stýrt af verkfræðingadeild bandaríska hersins og rannsóknar- og þróunarmiðstöð þeirra „Engineer Research and Development Center, ERDC.“
Samkvæmt tilkynningunni sem birt var í síðustu viki, þá hefur ERDC þegar valið Terra Analytics, fyrirtæki í Colorado sem sérhæfir sig í háþróuðum tölvumódelum og greiningu, sem verktaka. Öðrum hugsanlegum verktökum er frjálst að leggja fram tilboð í sambærilega þjónustu.
Í tilkynningunni eru taldar upp kröfur sem verktakar þurfa að uppfylla, svo sem fjölda starfsmanna, búnað, aðstöðu, eftirlit og annað sem þarf til að framkvæma rannsóknina. Pöntunin kemur samtímis og umræður um hugsanlegt kjarnorkustríð hafa aukist í ljósi Úkraínudeilunnar og vaxandi ágreinings á milli Nató og Rússlands.
New York Times greindi frá því í síðasta mánuði, að Bandaríkjastjórn hafi gert nýjar áætlanir, þar sem kjarnorkuher landsins verði undirbúinn undir samræmt kjarnorkustríð við Rússland, Kína og Norður-Kóreu samtímis.