Enn og aftur veður páfinn inn í umræðuna um innflytjendamálin. Núna heldur hann því fram, að sé alvarleg synd að hafna innflytjendum eða hafa stjórn á því hverjir sækja um hæli. Páfinn vill að stjórnmálamenn breyti lögum landa sinna til að auðvelda fleiri innflytjendum að koma. Skiptar skoðanir eru um afstöðu páfans innan kirkjunnar.
Frans páfi sagði í ræðu nýlega, að í stað takmarkandi laga og „hervæðingar“ landamæra vilji hann sjá útvíkkun á öruggum og reglubundnum leiðum og „alþjóðlegri stjórnun fólksflutninga sem byggist á réttlæti, bræðralagi og samstöðu.“ Páfinn sagði:
„Það verður að segja það skýrt: Þeir eru til sem vinna markvisst og á allan hátt að því að hafna farandfólki. Og þegar það er gert af samvisku og ábyrgð, þá er það alvarleg synd.“
Í ræðunni hrósaði hann einnig „frjálsum félagasamtökum sem gera sitt besta til að hjálpa og bjarga særðu og yfirgefnu farandfólki á ferðalagi örvæntingarfullrar vonar“:
„Þessir hugrökku menn og konur eru merki mannkyns sem smitast ekki af slæmri menningu afskiptaleysis og sóunar. Það sem drepur farandfólk er afskiptaleysi okkar og allt bruðl. Ég spyr þig: biður þú fyrir farandfólki, fyrir þeim sem koma til landa okkar til að bjarga eigin skinni? Og „þú“ vilt reka þá í burtu.“
Kardínálar ósammála
Allir eru ekki sammála páfanum. Meðal þeirra er Robert Sarah kardínáli frá Gíneu, fyrrverandi yfirmaður helgisiðadeildar Vatíkansins, sem telur að kirkjan eigi ekki að hvetja til fólksflutninga.
Samkvæmt Sarah er rangt að „nota orð Guðs til að ýta undir fólksflutninga.“ Að nota Biblíuna til að hvetja til fólksflutninga er „röng túlkun.“ Það er betra „að hjálpa fólki að blómstra í menningu sinni en að hvetja það til að koma til Evrópu.“
Annar kardínáli í Afríku, Nígeríumaðurinn Francis Arinze, sem eitt sinn var talinn vera fremstur í framboði til páfastólsins, hvetur Evrópubúa til að hætta að hvetja Afríkubúa til að flytja til Evrópu og fullyrðir, að fólk „hafi það betra í heimalöndum sínum.“
Aðeins 4 af 100 eru sannir flóttamenn
Í flóttamannakreppunni 2015 sagði prófessor Anna Bono, sem kennir Afríkusögu við háskólann í Turin, að flest farandfólk sem kemur frá Afríku til Ítalíu séu ekki flóttamenn sem eru að flýja stríð, hungur eða illviðri.
Af 100 innflytjendum sem koma til Ítalíu „eru aðeins fjórir sannir flóttamenn,“ útskýrir hún. Hinir 96 eru í raun efnahagslegir farandmenn í leit að betra lífi.
Að sögn Bono hafa farandmenn tilhneigingu til að vera ungir millistéttarmenn. Hinn mikli kostnaður við fólksflutninga talar gegn þeirri kenningu, að farandfólk sé að flýja erfiðar aðstæður. Þeir sem vilja koma til Evrópu þurfa að safna yfir 1.300.000 þúsund íslenskum krónum til að borga fólksmyglurum.
Fá allt ókeypis
Prófessorinn benti einnig á mikinn áróður fólkssmyglara í Afríkuríkjum til að stuðla að brottflutningi til Evrópu:
„Í löndunum sunnan Sahara eru auglýsingar, þar sem fólk er hvatt til að fara til Ítalíu og sagt að þar sé allt ókeypis. Og það er það virkilega. Ég get ímyndað mér símtölin sem þessir ungu menn hringja heim til vina sinna og staðfesta að þeir fái raunverulega allt ókeypis.“