Emmanuele Todd er þekktur fyrir að hafa spáð falli Sovétríkjanna. Hann telur að sigur Rússa í Úkraínu muni líklega þýða upplausn Nató og að Evrópa verði þar með leyst úr stjórnmálabandi Bandaríkjanna.
Í nýjustu bók sinni Ósigur Vesturlanda „The Defeat of the West“ hafnar hann hugmyndinni um útþenslu-Rússland og bendir á að líklega myndi tap Rússa í stríðinu framlengja undirgefni Evrópu við Bandaríkin í heila öld.
Emmanuele Todd telur að stríðið í Úkraínu muni ráða framtíð meginlands Evrópu sérstaklega varðandi pólitíska undirgefni Evrópu við Bandaríkin. Todd sagði í samtali við ítalska dagblaðið Corriere di Bologna:
„Ef Bandaríkin verða sigruð (í Úkraínu), þá verður Nató leyst upp og Evrópa verður frjáls.“
Að sögn Todd hafa Bandaríkin notað Nató í áratugi til að halda föstum tökum á Evrópu til að koma í veg fyrir sjálfstæða ákvarðanatöku sem ekki er að skapi Bandaríkjanna. Hann telur að þetta eigi ekki bara við um öryggisstefnuna heldur hafi einnig áhrif á efnahagslegar og félagslegar ákvarðanir.
Ef Rússar myndu vinna stríðið í Úkraínu telur Todd að það muni óbeint knýja fram breytingu á valdahlutföllum í Evrópu. Hann segir:
„Sálfræðilega áfallið sem bíður Evrópubúa er að átta sig á því, að Nató er ekki til til að vernda okkur, heldur til að stjórna okkur.“
Rússnesk útrásarhyggja er „brandari fyrir alvöru sagnfræðing“
Sagnfræðingurinn telur enn fremur, að sú hugmynd sem er ráðandi í Svíþjóð, að Rússar vilji ráðast með her inn í Vestur-Evrópu, sé afneitun á raunveruleikanum og að hvorki áhugi sé á því né fjármagn til staðar til að stækka Rússland frekar.
„Rússófóbísk geðveiki á Vesturlöndum, sem ímyndar sér innrás Rússa í Evrópu, er einfaldlega brandari fyrir alvöru sagnfræðing.“
Todd lýsir einnig hvernig iðnveldi Bandaríkjanna hefur veikst, þar sem fjármálageirinn hefur tekið yfir allt hagkerfið, sem takmarkað hefur getu þeirra til að framleiða þann herbúnað sem Úkraína þarfnast. Samtímis hafa refsiaðgerðir Vesturlanda skaðað efnahag Evrópu meira en Rússlands.
„Endurskipulagning rússneska hagkerfisins hefur verið möguleg vegna þess að þetta land framleiðir fleiri verkfræðinga en Bandaríkin. Þá halda lönd, sem ekki eru bandamenn eða undirsátar Bandaríkjanna, áfram að eiga viðskipti við Rússland.“
Todd spáir því að ósigur Bandaríkjanna og Úkraínu í stríðinu myndi leiða til upplausnar Nató og frelsa Evrópu frá því að vera háð Bandaríkjunum, sem leiða myndi til endurnýjunar stjórnarskipulags í álfunni.
Siðferðiskreppa Vesturlanda
Todd fjallar einnig um trúarlega hnignun Evrópu í bók sinni og hvernig hún hefur áhrif á siðferðilega uppbyggingu samfélagsins. Hann lýsir því hvernig evrópsk samfélög hafa skorið upp trúarlegan tómleika sem leitt hefur til þess sem hann kallar „eyðileggjandi níhilisma.“ Skortur á trúarlegum viðhorfum skilur fólk eftir með kvíða fyrir því að vera dauðlegt. Hann lítur á þetta sem grundvallarkraftinn að baki hugmyndafræði transhreyfingarinnar, sem hann bendir á að sé á kant við líffræðilegan veruleika.
„Fáránlegustu viðbrögðin við þessu tómi eru að dýrka tómleikann og gera að níhilisma, sem leiðir til áráttu til að eyðileggja hluti, fólk og veruleikann. Í mínum huga eru aðaleinkenni þess trans hugmyndafræðin sem fær efri millistéttina til að vilja trúa því að karl geti orðið kona og kona geti orðið karlmaður. Þetta eru rangar staðhæfingar. Líffræði erfðagena okkar segir þetta ómögulegt. Ég tala hér sem mannfræðingur, sem rannsakandi en ekki sem siðferðispredikari.“
Todd segist ekki líta á sjálfan sig sem siðferðilegan boðbera heldur fyrst og fremst sem rannsakanda og það sé út frá því sem hann skrifaði bókina. Bókin Ósigur Vesturlanda hefur hlotið bæði gagnrýni og lof og Todd segir að greiningar hans séu hlutlægar og byggðar á raunveruleikanum.
„Ég er ekki hliðhollur Rússum. En ég les texta Pútíns og Lavrovs og tel mig skilja markmið þeirra og rökfræði. Ef leiðtogar okkar hefðu tekið vísindamenn eins og mig og aðra alvarlega, hefðu þeir ekki leitt okkur út í þessar hörmungar.“