Öruggara í Írak en í Svíþjóð

Dagens Nyheter ræddi við veitingamanninn „Amin“ – sem kaus að flytja aftur heim til Íraks frá Svíþjóð og lýsir því sem bestu ákvörðun sem hann hafi tekið í lífinu. Amin segir við DN að hann sé búinn að gleyma tímabilinu í Svíþjóð og hann lifi sem konungur.

— Ég hef gleymt tímabilinu í Svíþjóð! Núna lifi ég eins og kóngur! Hlutirnir þróast hér, ég hef það gott núna!

Mun öruggara í Írak

Hann segist hafa glatað stórum hluta lífsins á meðan hann bjó í Svíþjóð. Hann hefur byggt upp veitingahúsarekstur í Írak og líður vel. Amin segir það sé „mun öruggara í Írak en í Svíþjóð.“

Eftir að hafa lifað undir hótunum, ofbeldi og fjárkúgun frá glæpasamtökum í Skärholmen, suðurhluta Stokkhólmsborgar, þá kaus Amin að yfirgefa Svíþjóð og snúa aftur til heimalands síns, sem hann flúði frá eftir innrás Bandaríkjanna árið 2003.

Í viðtalinu minnist Amin erfiðu áranna sem knúðu hann til að taka ákvörðun að fara til baka til Írak. Þótt upphaflega hafi verið jákvætt að búa í Svíþjóð, þá breyttist allt þegar glæpagengin tóku yfir svæðið. Veitingahúsaeigendur, þar á meðal Amin, voru neyddir til að greiða háar fjárhæðir til að „vernda fyrirtæki sín gegn skemmdarverkum og ofbeldi.“

Flytur frá Svíþjóð vegna glæpahópanna

Amin lýsir því hvernig lögreglan reyndi í upphafi að aðstoð hann en ofbeldið stigmagnaðist á svæðinu meðal annars með mörgum skotárásum. Ein skotárás var fyrir utan veitingastaðinn hans.

Eftir tíu ára baráttu og misheppnað hjónaband ákvað Amin að yfirgefa Svíþjóð. Í dag býr hann aftur í Írak, þar sem hann hefur stofnað nýjan veitingastað og finnst hann lifa öruggara lífi. Hann er sorgmæddur yfir að hafa misst sambandið við fjölskyldu sína í Svíþjóð. Amin segir við DN:

„Ég flutti til Svíþjóðar vegna þess að það var öruggt land að búa í. Núna flyt ég frá Svíþjóð, því það er ekki öruggt þar lengur.“

Fara efst á síðu