Nytsömu hálfvitarnir

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, frumkvöðull, formaður Frjálshyggjufélagsins og Ábyrgrar Framtíðar, ritar pistil á blog.is um ástandið á Gaza og mótmæli Hamas liða á Íslandi gegn Ísrael. Það vakti athygli að Félag lögreglumanna tók þátt í mótmælunum og eru ekki allir, hvorki lögreglumenn né aðrir sáttir við það. Þjóðólfur endurbirtir pistil Jóhannesar í heild sinni hér að neðan.

Jóhannes Loftsson skrifar:

Nytsömu hálfvitarnir

„Nytsömu hálfvitarnir“ var nafn sem Lenín notaði um auðtrúa fylgjendur sem komu honum til valda án þess að skilja hvað honum gekk til. Í mannkynssögunni hafa slíkir einfeldningar oft verið nýttur í ofbeldismönnum sem síðan stúta þeim um leið og þeir komast til valda.

Í stríðinu á Gasa eru tveir deiluaðila: Ísrael og Hamas.

Ísrael vill frið.  En fyrst þarf að frelsa gíslana, uppræta Hamas og svo þarf Ísrael að taka yfir Gasa svo hatrinu geti lægt. Áratugi gætu þurft til, en raunverulegur friður er þó mögulegur. 

Markmið Hryðjuverkasamtaka Hamas er ólíkt. Í stofnsamþykkt samtakanna vitna þeir í ákall trúarrits síns að drepa alla gyðinga. Útrýma verður Ísrael. Leiðtogi þeirra, Haniyeh kallaði t.d. eftir að palentískum börnum, konum og gamalmennum yrði fórnað í barráttunni. Svo ég vitni í orð hans: ( https://www.youtube.com/watch?v=g85Tv3epEvs ) 

„Eins og ég segi í hvert og eitt sinn, blóð barna, kvenna og þeirra eldri. Ég segi ekki að það blasi við ykkur, frekar að við þurfum þetta blóð til að kveikja í okkur baráttuandann, svo það muni vekja upp í okkur seiglu, svo það muni vekju upp í okkur andstöðuna til að halda áfram.“

Með píslavottum vill Hamas fæða hatrið og efla barráttuandann. Mannúðarfé var notað til að grafa 600 km af göngum undir Gasa til að verja Hamasliða, en almenningur fær ekki að koma inn. Plott Hamas að hámarka hörmungar almennings virkaði síðan fullkomlega, því vestrænir fjölmiðlar spiluðu með og fluttu út hatrið.

Íslendingar hafa fengið sinn stóra skammt að hatursáróðrinum, ekki síst fyrir tilstilli RÚV sem páfagaukar fréttatilkynningum Hamas án þess nokkurn tíman að kanna sannleiksgildið. Í skjóli blekkinganna hafa margir látið ginnast og gefið sig hatrinu á vald.  Á Austurvelli er sungið um að útrýma Ísrael, (í nafni friðar) og nú um helgina fjölmenntu nokkur samtök í hugvekju þar sem m.a. var boðið upp á hausinn á Þorgerði utanríkisráðherra á stöng og heimtað riftun viðskiptasamninga. Gríðarlegur undirbúningur bjó greinilega að baki því um hundrað íslensk samtök tóku þátt og mættu til að klappa með.  Athygli vakti þó að samtökin sem stóði í undirbúningum og án efa höfðu fjölda manns að vinna fyrir sig við smölun, eru á bullandi ríkisstuðningi.  Ríkið er þannig með fólk á launum við að skipuleggja mótmæli gegn sjálfu sér.

Þegar ég renndi yfir hvaða samtök tóku þátt í þessum stuðningsgjörningi við Hamas var mér hugsað til nytsömu hálfvita Lenín.

Tökum nokkur dæmi:

  • Hamas eru hryðjuverkasamtök, með markmið að drepa alla gyðinga.  Gat Landsamband lögreglumanna virkilega ekki fundið verðugra málefni að styðja?
  • Konur eru kúgaðar, þurfa karlkyns gæslumenn, takmarkað ferðafrelsi, eru giftar ungar og mega varla skilja og oft myrtar fyrir „fjölskylduheiðurinn“.  Af hverju eru Stígamót að styðja kúgun kvenna?
  • Á Gasa eru börn eru send í herþjálfunarbúðir, gerð að barnahermönnum.  Hundruð og mögulega þúsundir barna dóu við gangnagerð Hamas.  Af hverju er Barnaheill að styðja misnotkun barna.
  • Þegar Palestínumenn mótmæltu 2019 slæmum kjörum, brást Hamas við með því að berja, fangelsa og pynda mótmælendur.  Af hverju er Efling að styðja kúgun verkalýðs í öðrum löndum.
  • Í Líbanon tóku Palestínumenn þátt í þjóðhreinsunum á kristnum.  Af hverju er kirkjan að styðja fólk sem ofsækir kristna?

En hvað ætli valdi þessari múgsefnun? 

Titill mótmælanna er „þjóð gegn þjóðarmorði“, en án þess að vita það voru mótmælendurnir í raun að kalla eftir áframhaldandi stríði því í mótmælunum sjálfum felst hvatning til Hamas að halda áfram. Hatrið er allt eftir leikbók Hamas því tilgangur morðárásarinnar inni í Ísrael var fyrst og fremst að búa til slík mótmæli.

Enginn mótmælandi beinir reiði sinni að Hamas og enginn krefst þess að Hamas sleppi gíslunum og afvopnist svo stríðinu geti linnt.  Aðeins er krafist vopnahlés (svo Hamas geti endurnýjað vopnin sín og haldið stríðinu eilífa áfram).  Ef einhver smá skynsemiskorn væri í mótmælendum og þeir raunverulega vildu fá frið ættu þeir auðvitað ekki að mótmæla Ísrael, heldur Hamas.  

Um leið og Hamas sæi að hatursherferðin væri ekki að virka og hatrið beindist gegn þeim í staðinn, væri ekkert lengur að hvetja þá áfram í stríðinu.  Eini séns Hamas að fá eitthvað út úr þessum ófrið byggir á stuðningi „nytsömu hálfvitanna“. Án þeirra yrði erjunum sjálfhætt. Hamas er nefnilega árásaraðilinn og ef hann gefst upp er stríðið búið.

En hvernig getur þetta fólk verið svo veruleikafyrrt að það átti sig ekki á að Hamas er árásaraðilinn.  Hvernig getur það verið svo blint að átta sig ekki á því að enginn Palestínubúanna í mótmælunum er að biðja um tveggja ríkja lausn.  (þeir vilja eyða Ísrael af kortinu)  Hvernig getur allur þessi fjöldi fólks farið að mótmæla og lagt til lausnir sem eru svo vitlausar að þær eru vart þessa heims.  Svarið er nokkuð augljóst.  Það býr engin hugsun að baki.  Allar hugmyndir mótmælenda byggja á tilfinningum eftir tilfinningaklám RÚV með myndefni sem Hamas hefur sent þeim. Í krafti þessa tilfinningakláms hefur fólk lokað á alla rökhugsun og engar upplýsingar sem ógna tilvist tilfinningakláms-útópíunnar eru meðteknar.  Lygin sem er búið að endurtaka síðustu tvö ár er orðin það innstimpluð í sálarlíf þeirra að öll lífsmynd byggir á að lygin sé sönn.  Skítt með það þó Hamas drepi homma, það hljóta að vera ýkjur.  Skítt með barnahermennina, skítt með barnaþrældóminn skítt með heiðursmorðin á konum og kúgun kvenna.  Það hlýtur að vera lygi.  Ekki lýgur RÚV? Skítt með að þeir séu hryðjuverkamenn, skítt með að þeir hafi myrt, pyndað og nauðgað þegar þeir réðist inn í Ísrael.  Þeir eru jú fórnarlömb og þetta er því ekki þeim að kenna. Skítt með raunveruleikann, útópían mín er miklu betri.

Ekkertisminn er tekinn yfir, það er enginn sannleikur lengur til, orð eru bara orð og þeim má breyta með áróðri, hringur getur verið kassi, heitt getur verið kalt og vont getur verið gott.  Siðferði er ekki til nema sem orð því allt sem hópurinn gerir er rétt. 

Við lifum á hættulegum tímum nú þegar þessi versta ófreskjuheimsspeki mannkynssögunnar er aftur vöknuð.  Því þeir sem trúa á ekkert standa fyrir ekkert nema það að hlýða þeim sem stýrir áróðursvélunum.

þorgerðurk

Íslenskir Palestínumótmælendur á góðri stund

Fara efst á síðu