Stríðinu í Úkraínu verður að ljúka, Úkraína fær ekki að gerast meðlimur í Nató og ríki Evrópu verða að taka meginábyrgð á að aðstoða landið eftir stríðið. Það er „óraunhæft“ að trúa því að snúið verði aftur til þeirra landamæra sem giltu fyrir 2014. Það eru skilaboðin frá Pete Hegseth, nýjum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Varnarmálaráðherrar funda í þessari viku í Brussel. Nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth, er á Natófundi í fyrsta sinn. Auhljóst er að Bandaríkin hafa fengið nýja ríkisstjórn. Skilaboðin frá Hegseth eru gjörólík forvera hans Lloyd Austin.
Stríðinu verður að ljúka
Pete Hegseth ræddi Úkraínustríðið í upphafi ræðu sinnar en málið hefur verið aðalmál Nató síðast liðin þrjú ár. Hegseth sagði:
„Þessum blóðsúthellingum verður að linna, stríðinu verður að ljúka. Trump forseti hefur sagt skýrt við bandarísku þjóðina og marga leiðtoga ykkar, að það sé forgangsverkefni að binda enda á stríðið og ná varanlegum friði. Hann ætlar að binda enda á þetta stríð með samningaviðræðum og koma bæði Rússlandi og Úkraínu að samningaborðinu.“
Ólíkt fyrri ríkisstjórn þá trúir stjórn Trump ekki á hernaðarsigur yfir Rússum.
Meta þarf stöðu vígvallarins á raunsæjan hátt
Pete Hegseth segir að Bandaríkin vilji að Úkraína verði áfram sjálfstætt og velmegandi land, en samtímis verði að meta stöðuna á vígvellinum á raunsæjan hátt:
„Við verðum að byrja á því að viðurkenna að það er óraunhæft markmið að hverfa aftur til landamæra Úkraínu eins og þau voru fyrir 2014.“
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna varar einnig við „Minsk 3.0“ samningi sem muni leiða til þess að stríðið blossi upp aftur í framtíðinni. Hann vill að lönd í Evrópu taki á sig meginábyrgð á stuðningi við hið stríðshrjáða land.
Úkraínu fer ekkert í Nató
Úkraínu verður heldur ekki hleypt inn í Nató með Donald Trump í Hvíta húsinu. Hegseth segir að Bandaríkin trúi því ekki að Nató aðild Úkraínu sé raunhæf niðurstaða samningalausnar. Þess í stað vill hin nýja ríkisstjórn Bandaríkjanna að landamæri Úkraínu og Rússlands verði tryggð af evrópskum hermönnum. Bandaríkin munu ekki senda eigin hermenn. Hann segir að skuldbindingar Evrópuríkja í varnarmálum þurfi að aukast í framtíðinni. Varnarmálaráðherrann lagði áherslu á eftirfarandi:
„Til að segja það skýrt, bandarískir hermenn verða ekki staðsettir í Úkraínu sem hluti af neinni öryggistryggingu.“