ESB ætlar að senda 100 milljarða evra, samsvarandi 14.338 milljörðum íslenskra króna, rúmlega tíu sinnum fjárlög íslenska ríkisins, í nýjan hjálparpakka til Úkraínu. Sagt er að stofna eigi sérstakan stuðningssjóð fyrir Úkraínu, sem muni tryggja stöðugan langtíma fjárhagslegan stuðning við landið eftir þriggja og hálfs árs stríð sem enn er í fullum gangi og engin merki um að hætti neitt í bráð.
Sjóðurinn á að vera hluti af komandi sjö ára fjárlagafrumvarpi ESB. Bloomberg greinir frá. Ef aðildarríkin samþykkja tillöguna í komandi fjárlagaviðræðum gætu greiðslurnar hafist til Úkraínu árið 2028.
Donald Trump Bandaríkjaforseta kennt um
Nýja frumkvæðið með enn þá meiri peningaaustri til Úkraínu er talin vera leið fyrir ESB til að axla meiri ábyrgð á varnarmálum og endurreisn Úkraínu og Donald Trump kennt um, þar sem hann hefur rætt um hugsanlegan frið við Pútín. Frið í Úkraínu má ekki nefna í eyru forráðamanna sambandsins sem setja Trump við hlið óvinarins Pútíns. Evrópusambandið tryggir opinberar greiðslur eins og laun til starfsmanna ríkisins í Úkraínu.
Vikuna áður voru nokkrar vopnasendingar frá Bandaríkjunum til Úkraínu stöðvaðar, áður en ákvörðunin var nýlega felld úr gildi og Trump ákvað að senda meiri vopn til Úkraínu.
ESB hefur áður sent samtals 160 milljarða evra til stuðnings Úkraínu. Það samsvarar 23 þúsund milljörðum íslenskra króna eða 17 fjárlög íslenska ríkisins. Af þeirri upphæð eru 50 milljarðar evra sérstakur stuðningspakki í formi styrkja og lána sem nær til ársins 2027.
Gert er ráð fyrir að nýi stuðningspakkinn fylgi líkani sem sameinar beina styrki og ívilnandi lán. Lánin eru tengd kröfum um stjórnmálalegar og efnahagslegar aðgerðir í Úkraínu til að færa landið nær aðild að ESB. Hins vegar er óvíst hvort Úkraína geti endurgreitt lánin. Allt fer eftir því hvernig stríðið þróast.