Ný skýrsla: Íslam að baki 81% trúarlegra árekstra á frönskum vinnustöðum

Trúarleg spenna eykst á frönskum vinnustöðum vegna aukinnar nærveru íslam. Hefur spennan náð hæsta stigi síðan mælingar hófust árið 2013. Þar er íslam í aðalhlutverki í vaxandi fjölda trúarlegra árekstra í atvinnulífinu, samkvæmt nýrri rannsókn.

Samkvæmt „Baromètre du Fait Religieux en Entreprise“ (sjá pdf á frönsku að neðan) þá upplifa meira en 70% fyrirtækja mikla aukningu árekstra á vinnustöðum vegna trúarskoðana að undanförnu. Í skýrslunni er bent á vaxandi sýnileika íslamskra venja sem hefur í för með sér auknar áskoranir á vinnustöðum. Vaxandi spenna í kringum trúartákn, bænahætti og skoðanir starfsmanna á konum taka sinn toll.

Íslam var að baki 81% trúarlegra árekstra á vinnustöðum og er það áberandi aukning úr 73% árið 2022. Birtist aukningin meðal annars í klæðaburði eins og slæðum og búrkum og öðrum trúarlegum auðkennum en tilvísanir í slík trúartákn hafa aukist upp í 36% tilfella miðað við 19% fyrir tveimur árum síðan.

Í skýrslunni segir, að múslímskir starfsmenn, sérstaklega ungir menn í lægri stöðum, séu oft miðpunktur átaka á vinnustað. Truflandi hegðun eins og að neita að vinna með konum eða árásargjarnar tilraunir til að breyta skoðunum annarra tengjast óhóflega íslömskum venjum.

Ráðningarmismunun gegn múslimum hefur á sama tíma aukist og tengjast 71% skjalfestra mismununaratvika þeim trúarhópi.

Trúarleg spenna nær út fyrir íslam. Gyðingar upplifa fordóma í auknum mæli eins og sjá má í tilkynntum árekstrum, þar sem gyðingum er neitað um störf sem hefur tvöfaldast frá síðustu könnun. Engu að síður er íslam sterkasti þáttur trúarbragðaátaka á vinnustöðum. Í skýrslunni er lögð áhersla á brýna nauðsyn aðgerða og fyrirtækjum bent á að taka upp víðtæka stefnu sem tryggi trúfrelsi og hlutleysi á vinnustað.

Fara efst á síðu