Enn eru þeir til sem telja Evrópusambandið vera lýðræðislegt. Þeir gerðu rétt í að kynna sér hvílík gróðrarstía spillingar þrífst meðal þingmanna ESB. Ný heimildarmynd fjallar um eitt stærsta spillingarhneykslið innan ESB, kallað Qatargate, þar sem þingmenn hafa tekið við mútum í reiðufé til að vinna fyrir hagsmuni ríkisins Qatar. Hefur reynst tiltölulega „ódýrt” að kaupa suma þeirra til að „gleyma” hagsmunum eigin landa og fara að vinna fyrir þá sem greiða þeim reiðufé á „svarta stjórnmálamarkaðinum.” Í myndinni koma sem betur nokkrir þingmenn fram sem eru því algjörlega ósammála, að þingmenn láti kaupa sig til spillingarverka.
30.000 lobbýistar staðsettir í Brussel hafa mikil völd og spurning hversu mikil áhrif peningar undir borðið hafa á afstöðu þingmanna ESB.
Allt að 30.000 manns vinna við það að hafa áhrif á ákvarðanir ESB. Sænsk fyrirtæki eyða mörgum milljónum á hverju ári í hagsmunagæslu innan ESB eins og Spotify, EQT Group, Ericsson, Nasdaq, Boliden Group, Saab, Scania, Stockholm Energy, Vattenfall og Essity AB. Mörg önnur sænsk fyrirtæki sem ekki eyða jafnmiklu fé eins og þau sem eru upptalin hafa sum hver enn stærri starfsmannaflota til að hafa áhrif á ákvarðanir ESB.
Á undanförnum árum hefur ESB fært sífellt meiri völd frá einstökum aðildarríkjum. Flestar mikilvægar ákvarðanir nútímans eru teknar víðs fjarri almenningi. Qatargate er langt í frá að vera neitt einstakt dæmi, þótt þingmennirnir og aðrir embættismenn hafi verið staðnir beint að verki með fingurna í sultukrukkunni. Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, segir ESB stútfullt af spillingu.
Qatargate er viðvarandi pólitískt hneyksli, þar sem embættismenn ESB-þingsins, lobbýistar og fjölskyldur þeirra hafi orðið fyrir áhrifum frá ríkisstjórnum Katar, Marokkó og Máritaníu. Voru ýmsir embættismenn handteknir með ferðatöskur fullar af reiðufé í evrum sem ríkin greiddu til að kaupa ákvarðanir sér í hag hjá ESB. Á myndinni er Eva Kalli, varaforseti ESB-þingsins, ein þeirra ákærðu fyrir spillingu, peningaþvott og skipulagða glæpastarfsemi. Hún var rekin úr starfi sínu hjá ESB.
Antonio Panseri á mynd, fv. ESB-þingmaður var meðal þeirra sem voru handteknir með mikið magn af reiðufé í evrum. Lögregluyfirvöld í Belgíu, Ítalíu og Grikklandi lögðu hald á 1,5 milljónir evra í reiðufé, gerðu upptækar tölvur og farsíma og kærðu fjóra einstaklinga fyrir meint brot. Belgísk yfirvöld rannsaka viðamikla spillingu sem engu að síður heldur áfram innan ESB. Framkvæmdastjórn ESB gerir lítið sem ekkert í málunum og það mesta er sópað undir teppið.
Í júlí 2022 hóf Belgíska lögreglan rannsókn á meintum glæpasamtökum undir forystu rannsóknarlögreglunnar Michel Claise, sem starfar með hópi ríkja gegn spillingu sem kallast GRECO. Þann 9. desember 2022 gerði belgíska lögreglan 20 rassíur á 19 mismunandi heimilisföngum víðs vegar um Brussel í tengslum við glæpasamtökin. Átta manns voru handteknir víða í Belgíu og á Ítalíu. Leitað var á heimilum og skrifstofum hinna grunuðu, þar á meðal skrifstofum í byggingum Evrópuþingsins í Brussel. Forseti Evrópuþingsins, Roberta Metsola, varð að snúa frá heimili sínu á Möltu til að vera viðstaddur leit á eignum Evu Kaili og Marc Tarabella, sem báðir nutu friðhelgi ESB-þingsins sem þingmenn.
Fyrsta handtakan átti sér stað á Sofitel hótelinu í Brussel, faðir Evu Kaili, var handtekinn. Hann var með ferðatösku sem innihélt „nokkur hundruð þúsund evrur” þegar hann reyndi að flýja. Í kjölfarið var þinghelgi Evu Kaili aflétt svo lögreglan gæti leitað á eignum hennar. Um tugur lögreglumanna, ásamt Claise dómara, leituðu í íbúð Kaili og var hún handtekin í kjölfarið.
Einnig var leitað á heimili Antonio Panzeri og þar fundust 600 þúsund evrur í reiðufé. Samtals fann lögreglan um 1,5 milljónir evra í reiðufé í aðgerðinni. Der Spiegel fékk aðgang að yfir 1 300 gögnum um skipulagða glæpastarfsemi, mútur og peningaþvott. Sumir fóru í fangelsi, aðrir veittu lögreglunni nánari upplýsingar til að fá minni dóma. Lesa má viðamikla samantekt á Wikipedia yfir þessa glæpi sem leiddu til brottrekstrar Kaili ásamt öðrum þeim sem voru viðriðin peningaþvottinn innan ESB.
Í heimildarmyndinni Stærsta spillingarhneykslið í ESB er Qatargate aðeins toppurinn á ísjakanum. Þeir sem framleiddu myndina tóku viðtöl við nokkra ESB-þingmenn sem gagnrýna ESB. Það sem gagnrýnt var m.a. að margir þingmenn sem tengdust Qatar hneykslinu fengu að starfa áfram, Qatar fékk leyfi að byggja stóra róttæka íslamska mosku í Króatíu, ESB sópar mörgum spillingarmálum undir teppið og áfram er haldið á sömu braut. Þá voru vinstri menn og sósíalistar gagnrýndir fyrir hræsni að þykjast vinna fyrir fólk en margir taka á móti mútum til að keyra áfram dagskrá alþjóðasinna (glóbalista). András László, fulltrúi íhaldsflokksins Fidesz segir í myndinni:
„Það eru þingmenn á þessu þingi sem telja sambandshyggju og alþjóðahyggju mikilvægara en að verja þjóðarhagsmuni sína, verja menningu sína, verja sjálfsmynd sína. Það verður alltaf fólk að selja út evrópska hagsmuni, burtséð frá því hver kaupandinn er.”