Hneykslið með skurðaðgerðir háskólasjúkrahússins í Uppsölum á heilbrigðum konum sem voru skilgreindar á rangan hátt með krabbamein í leghálsi er ekkert í rénum. Fyrst var greint frá hópi 33 kvenna sem gengust undir skurðaðgerðir, þar sem leg þeirra voru fjarlægð vegna rangrar krabbameinsgreiningar. Var það á árunum 2023 – 2024. Guðlaug Sverrisdóttir yfirmaður kvennadeildar sjúkrahússins bað sjúklingana opinberlega afsökunar í sænska sjónvarpinu eftir að mistökin urðu ljós. Hún sagði rangtúlkun á krabbameinsgreiningu hafa valdið mistökunum.
Sjúkrahúsið ráðlagði konunum að láta skera burtu legið til að hindra að hið greinda krabbamein dreifðist um líkamann. Síðar kom í ljós að engin þeirra hafði krabbamein og aðgerðirnar alveg að óþörfu. Þá var sett í gang innri rannsókn og athugun á því, hvort fleiri konur hefðu einnig orðið fyrir sömu mistökum og var ár 2022 einnig athugað. Fann sjúkrahúsið ellefu konur til viðbótar þannig að tala kvenna sem urðu fyrir þessum hörmulegu mistökum fór þá upp í 44.
Eftir enn frekari rannsóknir hefur sjúkrahúsið núna fundið 14 konur til viðbótar, þannig að tala heilbrigðra kvenna sem fylgdu læknisráðum sjúkrahússins og létu fjarlægja legið er komin upp í 58 konur.
Ekki er talið útilokað að konurnar séu enn fleiri og er rannsóknum haldið áfram. Heilbrigðisyfirvöld hafa rannsakað ástandið á fleiri stöðum en í Uppsala en segja að þessi mistök við greiningaraðferð krabbameins með svo kallaðri EIN greiningaraðferð sé einvörðungu bundin við háskólasjúkrahúsið í Uppsala. Konurnar voru á aldrinum 38 til 85 ára, þegar skurðaðgerðirnar voru framkvæmdar. Þær voru beðnar afsökunar á mistökunum og sagt að snúa sér til almannatrygginga til að fá bætur vegna mistakanna.