Nær öll áætluð vindorkuver stöðvuð í Svíþjóð

Samkvæmt skýrslu um framkvæmdir við byggingu vindorkuvera í Svíþjóð, kemur í ljós að hætt var við nánast allar vindorkuframkvæmdir fyrri hluta árs 2024. Sveitarfélögin í Svíþjóð beittu neitunarvaldi sínu til að stöðva byggingarframkvæmdir vindorkuveranna.

Vindorkan er ekkert sérlega vinsæl í sveitarfélögum Svíþjóðar. Margir telja að vindorka hafi neikvæð áhrif á dýralíf, taki allt of mikið land undir starfsemina og eyðileggi náttúrulegt umhverfi.

Í sumar stöðvuðu sænsk sveitarfélög 150 af 229 fyrirhuguðum vindmyllum á landi og núna greinir fréttastofan TT frá því, að nánast allar vindorkuframkvæmdir hafi verið stöðvaðar á fyrri hluta árs 2024. Iðnaðarsamtökin Sænsk vindorka skrifa í fréttatilkynningu:

„Neitunarvald sveitarfélaga var meginástæða þess, að engin þeirra ellefu umsókna um vindorku á landi og í landhelgi sem endanlega var tekin fyrir á fyrri hluta ársins fékk framkvæmdaleyfi.“

Ennfremur segir, að sænski herinn hafi stöðvað þrjú af þeim fjórum verkefnum sem sveitarfélögin höfðu þegar samþykkt. Daniel Badman, framkvæmdastjóri, Sænskrar vindorku, skorar á stjórnvöld að taka til hendinni:

„Ef stjórnvöld grípa ekki í taumana með skjótum hætti, þá má búast við að hinni miklu stækkun raforkuframleiðslu í Svíþjóð, sem þarf til iðnaðar og samgöngumála, verði hvorki lokið fyrir 2030 eða 2035. Þá verður sænsk samkeppnishæfni í hættu.“

Fara efst á síðu