Mikill olíufundur í Eystrasalti við Pólland

Ein stærsta uppgötvun jarðefnaeldsneytis í sögu Póllands var gerð í Eystrasalti undan ströndum Swinoujscie. Talið er að þar séu 33 milljónir tonna af hráolíu og 27 milljarðar rúmmetra af jarðgasi, að því er Business Insider greinir frá.

Orkufyrirtækið Central European Petroleum (CEP) hefur staðfest að uppgötvunin í Wolin East 1 rannsóknarholunni, sem er staðsett sex kílómetrum frá strandborginni Świnoujście í norðvesturhluta Póllands, sé stærsta olíusvæði í sögu landsins. Svæðinu er einnig lýst sem einu því stærsta sem fundist hefur í Evrópu í meira en áratug.

Samkvæmt bráðabirgðaáætlunum frá pólsku orkumálamiðstöðinni gætu heildarforði svæðisins numið yfir 33 milljónum tonna af olíu og 27 milljörðum rúmmetra af gasi. Rolf G. Skaar, forstjóri CEP, sagði í yfirlýsingu:

„Wolin East er meira en bara efnilegt svæði, það er sameiginlegt tækifæri til að leysa úr læðingi allan jarðfræðilegan og orkulegan möguleika Eystrasaltsins.“

Krzysztof Halosz, yfirjarðfræðingur Póllands, telur að uppgötvunin gæti skipt miklu máli fyrir orkuöryggi landsins og dregið úr ósjálfstæði gagnvart erlendum orkugjöfum.

Áður en vinnsla getur hafist þarf að ganga frá jarðfræðilegum gögnum og fá viðeigandi leyfi samþykkt.

Kanadíska fyrirtækið CEP hefur verið virkt á evrópskum markaði síðan 2006 og starfar meðal annars í Þýskalandi og Póllandi.

Útibúið í Póllandi hefur verið starfandi síðan 2018 með leyfi til rannsókna bæði á landi og undan ströndum í kringum Świnoujście. Hlutafé fyrirtækisins er aðeins 5.000 zloty með norskan aðaleiganda, Anna Margaret Smedvig frá Noregi.

Fara efst á síðu