Ákvörðun Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu að undirrita ný lög, sem veita ríkissaksóknara stjórn yfir aðhaldsstofnunum Úkraínu gegn spillingu í landinu, hefur kveikt mikla mótmælaöldu í mörgum borgum og harða gagnrýni frá umheiminum, að því er BBC News greinir frá.
Nýju lögin þýða að Ruslan Kravchenko, ríkissaksóknari, sem er náinn bandamaður Zelensky, fær völd til að endurskipuleggja spillingarrannsóknir og jafnvel að hætta þeim.
Það hefur áhrif á bæði Þjóðarstofnunina gegn spillingu (NABU) og sérstakan saksóknara gegn spillingu (SAP), tvær stofnanir sem komið var á fót að beiðni vestrænna ríkja eftir valdaránið árið 2014.
Eftir að lögin voru samþykkt söfnuðust mótmælendur saman í Kænugarði í stærstu mótmælum gegn stjórnvöldum eftir innrás Rússa í febrúar 2022. Samkvæmt BBC voru mótmæli einnig í borgunum Lviv, Dnipro og Odessa.
Pabbi dó ekki fyrir þetta
Mótmælunum er beint gegn því að verið er að grafa undan þegar löskuðu réttarríki. Mótmælendur báru skilti með skilaboðum eins og „Við völdum Evrópu, ekki einræði“ og „Faðir minn dó ekki fyrir þetta,“ að sögn BBC.
Einn mótmælenda, lögfræðingurinn Maryna, 40 ára, sagði við Kyiv Independent að Zelensky yrði að stöðva lögin:
„Ef hann beitir ekki neitunarvaldi gegn lögunum, þá er eins og verið sé að hrækja í andlit allra þeirra mæðra, eiginkvenna og barna sem misst hafa ástvini á vígstöðvunum. Það er verið að traðka á minningu allra þeirra sem hafa gefið lífið fyrir frelsi okkar, reisn og sjálfstæði.“
Zelensky varði ákvörðun sína um að undirrita lögin í ræðu og hélt því fram að kerfið virkaði ekki gegn spillingunni. Að sögn forsetans hafa mál sem varða milljarða dollara „legið á hillinnu“ í mörg ár og að hans sögn miða aðgerðirnar að því að hreinsa út „rússnesk áhrif.“ Hann lofaði að glæpamenn yrðu dregnir til ábyrgðar.
Gagnrýnendur segja að þetta séu einmitt sömu rökin og notuð eru til að afnema vísvitandi sjálfstæði stofnananna.
Daginn áður en lögin voru samþykkt gerðu úkraínska öryggisþjónustan og saksóknaraembættið húsleit hjá grunuðum rússneskum njósnurum innan Nabu – sem juku enn frekari grunsemdir um pólitískt eftirlit.
Áhyggjur eru einnig augljósar frá ESB. Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Guillaume Mercier, lýsir yfir áhyggjum og bendir á að fjárhagslegur stuðningur við Úkraínu sé tengdur framförum í umbótum dómskerfisins og lýðræðislegri stjórnarháttum.
Samkvæmt Mörtu Kos, stækkunarstjóra ESB, þá eru lögin „alvarlegt bakslag.“ Hún skrifar á samfélagsmiðlum að núna sé búið að afnema sjálfstæði Nabu, þrátt fyrir að stofnunin sé lykilatriði í umsókn Úkraínu að ESB.
Taras Katchka, varaforsætisráðherra Úkraínu, fullvissar hins vegar að kjarnastarfsemi stofnananna sé enn til staðar og að baráttan gegn spillingu sé ekki til sölu.
Fyrrverandi utanríkisráðherra, Dmytro Kuleba, hefur einnig tjáð sig um þróunina og kallar hana „slæman dag fyrir Úkraínu.“ Að sögn Kuleba verður forsetinn núna að velja hlið – fólkið eða ríkisstjórnina.
Sendiherrar G7-ríkjanna hafa óskað eftir viðræðum við úkraínska leiðtoga um stöðuna í kringum Nabu og Sap.